Oddur Ólafsson(1933-2017)

Oddur fæddist 28. júlí. Foreldrar hans voru Ólafur A. Kristjánsson, verkamaður og síðar bæjargjaldkeri í Hafnarfirði, og Sigurborg Oddsdóttir. Oddur stundaði nám við lýðháskóla í Svíþjóð, en hóf síðan nám í ljósmyndun árið 1954 á ljósmyndastofu Sigurðar Guðmundssonar sem annaðist á þeim tíma myndatökur fyrir Þjóðviljann og þannig komst Oddur fyrst í tæri við blaðaljósmyndun. Hann var síðan ráðinn sem ljósmyndari á Alþýðublaðið 1957, í ritstjóratíð Gísla J. Ástþórssonar. Hann varð fljótlega hvorttveggja í senn, ljósmyndari og skrifandi blaðamaður, sem síðan varð hans aðalstarf. Hann hvarf um skeið frá blaðamennsku og rak þá ljósmyndastofu, en sneri aftur upp úr miðjum sjöunda áratugnum og hóf starf sem blaðamaður á Tímanum. Þar starfaði hann í liðlega þrjá áratugi, varð aðstoðarritstjóri blaðsins 1986 og seinna ritstjórnarfulltrúi þegar Akureyrarblaðið Dagur og Tíminn voru sameinuð í Dagur Tíminn á árunum 1996-1997. Oddur Ólafsson hefur lýst því í viðtali í Þjóðviljanum hvernig hann varð blaðamennskunni að bráð: „Að loknu námi var ég ráðinn á Alþýðublaðið, sem þá var verið að breyta og átti að leggja mun meiri áherslu á myndir en áður hafði verið. Þar gerði ég svo þá agalegu skyssu að láta komast upp um það að ég gæti skrifað myndatexta og jafnvel það sem fólk sem ég myndaði hafði sagt. Og þetta nýttu þeir sér, enda sjaldgæft að menn geti bæði skrifað og tekið myndir. Ég held að blaðamenn séu eina stéttin á Íslandi, sem ekkert kann fyrir sér í ljósmyndun. Svo endaði ég sem blaðamaður.“

Oddur lauk ferlinum á DV. Hann er bróðir Haraldar Ólafsson, prófessors, sem einnig starfaði um hríð sem blaðamaður á bæði Alþýðublaðinu og Tímanum og sem dagskrárstjóri útvarpsins.

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1652150/?item_num=0&searchid=ec942407ae8022fb532464a54770baf8678c1b3b