Golli tók mynd ársins 2019

Mynd ársins: Golli / Kjartan Þorbjörnsson.  Vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul . Ums…
Mynd ársins: Golli / Kjartan Þorbjörnsson. Vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul . Umsögn dómnefndar: Áhrifarík og táknræn mynd fyrir loftslagsbreytingar af manna völdum. Myndin sýnir hversu smár maðurinn er í samanburði við náttúruna og síbreytilegan jökulinn frá áhugaverðu sjónarhorni.

Í dag voru afhent verðlaun í Ljósmyndasafni Reykjavíkur fyrir bestu myndir ársins 2019. Veitt voru verðlaun í 7 flokkum auk bestu myndar ársins. Mynd ársins 2019 tók Golli / Kjartan Þorbjörnsson, ljósmyndari Iceland Review og er það mynd frá vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á vatnajökul. Umsögn dómnefndar um myndina: Áhrifarík og táknræn mynd fyrir loftslagsbreytingar af manna völdum. Myndin sýnir hversu smár maðurinn er í samanburði við náttúruna og síbreytilegan jökulinn frá áhugaverðu sjónarhorni.

Aðrir ljósmyndarar sem voru verðlaunaðir voru Sigtryggur Ari Jóhannson, ljósmyndari Fréttablaðsins,  sem átti bestu mynd í fréttaflokki, Golli / Kjartan Þorbjörnsson sem átti myndröð ársins, Heiða Helgadóttir, ljósmyndari Stundarinnar, sem átti portrett ársins og daglegt líf mynd ársins, Kristinn Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins, sem átti bestu íþróttamynd ársins, Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins,  sem tók bestu umhverfismynd ársins og Aldís Pálsdóttir sem tók tímaritamynd ársins 2019.

Sjö dómarar völdu 96 myndir á sýninguna í ár úr 826 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara. Þeir völdu þar að auki sigurmynd í hverjum flokki og mynd ársins. Dómnefndina í ár skipuðu Arnaldur Halldórsson, Bragi Þór Jósefsson, Brynjar Gunnarsson, Kristinn Ingvarsson, Rut Sigurðardóttir, Sigríður Kristín Birnudóttir og Catalina Martin-Chico, sem jafnframt var formaður dómnefndar.

 

Blaðaljósmyndarafélag Íslands var stofnað árið 1976 og starfar innan Blaðamannafélags Íslands. Sýningin Myndir ársins hefur verið haldin síðan 1979 og er ein fjölsóttasta ljósmyndasýningin landsins ár hvert. Stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands í ár skipa Kristinn Magnússon (formaður), Eyþór Árnason, Hákon Davíð Björnsson, Heiða Helgadóttir, Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir og Styrmir Erwinsson.

Hægt að nálgast bók með öllum myndum sýningarinnar í safnbúð Ljósmyndasafns Reykjavíkur og á Blurb.com.

 Sýningin verður opin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur frá 11. maí til 1. júní. Fjöldi gesta í sýningarsal hverju sinni takmarkast við 40 manns og virða þarf 2ja metra regluna.

Allar myndir voru prentaðar á Canon prentara og pappír.

 Fréttamynd ársins: Sigtryggur Ari Jóhannsson

 

Myndatexti: Skólafólk hefur mótmælt aðgerðarleysi í loftslagsmálum í hádeginu á föstudögum í meira en ár. Mótmælin eru að fyrirmynd baráttukonunnar ungu, Gretu Thunberg.

Umsögn dómnefndar: Myndin fangar það málefni sem hefur einna mest verið í umræðunni á Íslandi og heiminum öllum. Skilaboðin koma skýrt fram í myndinni og sýna að ungt fólk lítur til framtíðar.

 

Íþróttamynd ársins: Kristinn Magnússon

 

Myndatexti: Anton Sveinn McKee stingur sér til sunds er hann keppir í 50 metra bringusund. Vann hann til gullverðlauna þegar hann synti á 28,68 sekúndum.

Umsögn dómnefndar: Mynd sem fangar kjarna íþróttaljósmyndunar. Góð myndbygging á hárréttu augnabliki.

 

Tímaritamynd ársins: Aldís Pálsdóttir

 

Myndatexti: Sundhöllin - Er allt sem sýnist? Hvað er fullkomið?

Umsögn dómnefndar: Vel útfærð tískumynd með fallegri lýsingu og góðri myndbyggingu. Módelið fangað á grafískan hátt.

 

Umhverfismynd ársins: Eggert Jóhannesson

 

Myndatexti: Landhelgisgæslan Ískönnunarleiðangur - FT SIF

Umsögn dómnefndar: Tignarlegur ísjaki sem flýtur um í þokunni gefur okkur tilfinningu fyrir því sem er að tapast en einnig fyrir styrk og mikilfengleika náttúrunnar.

 

Daglegt líf mynd ársins: Heiða Helgadóttir

 

Myndatexti: Ragnar Emilsson skipstjóri á Mána ii hefur stundað sjómennsku í 35 ár. „Þetta lá alltaf fyrir mér, ég var búin að ákveða að gerast sjómaður þegar ég var 5 ára. Þetta voru idolin, maður var alltaf að fylgjast með þeim á höfninni. Ég er búin að prófa að gera annað, það gekk ekki upp. Þetta togar í mann. Mér líður bara vel á sjónum, það er eitthvað þetta er óútskýrt, þegar maður er í fríi þá er  maður út á bryggju að spá og spekulera og skoða bátana.”

Umsögn dómnefndar: Tímalaus mynd sem sýnir kuldalegan veruleika íslenskra smábátasjómanna.

 

Portrettmynd ársins: Heiða Helgadóttir

 

Myndatexti: Sif Baldursdóttir um hamingjuna.  „Veit einhver hvað þessi blessaða hamingja í alvörunni er? Er hún ástand eða tilfinning, eða er hún óljóst hugtak sem við eltumst við án þess einu sinni skilja hvað við erum á höttunum eftir. Kvíði og þunglyndi eru gráir fylgifiskar þess að vera manneskja og að lifa í samfélagi sem uppfyllir ekki þær þarfir sem við höfum varðandi nánd nema að vissu eða litlu leyti. Það sem ég átta mig betur og betur á með hverju árinu er að geðheilsan er svo mikilvæg að hún er eiginlega allt.“

Umsögn dómnefndar: Táknrænt og marglaga portrett. Vel innrömmuð mynd sem leyfir áhorfandanum að upplifa og túlka sjálfur.

 

Myndasería ársins: Golli / Kjartan Þorbjörnsson

 

Myndatexti: Vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul

Umsögn dómnefndar: Vel uppbyggð sería sem sameinar fallegar myndir og heildstæða frásögn sem á erindi við okkur öll. Myndröðin sýnir menn í tengslum við náttúruna frá ýmsum sjónarhornum.