2005 Jónína Benediktsdóttir gegn 365-prentmiðlum ehf. Og Kára Jónassyni

Jónína Benediktsdóttir krafðist staðfestingar á lögbanni sem hún hafði fengið lagt við því að 365 Prentmiðlar birti í Fréttablaðinu eða öðrum fjölmiðlum í hans eigu gögn sem hún taldi hafa verið fengin úr tölvupósthólfi sínu með ólögmætum hætti. Hún krafðist einnig staðfestingar á ákvörðun sýslumanns um að taka í sínar hendur tiltekin gögn í vörslum 365 Prentmiðla. Ekki var hins vegar gerð krafa um þau réttindi, sem Jónína leitaði verndar á til bráðabirgða með lögbanni, og ekki heldur um að fyrrgreind gögn yrðu afhent henni. Var kröfugerð Jónínu að þessu leyti talin í andstöðu við 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 og því ekki unnt að leysa úr öðru en því hvort formleg og efnisleg skilyrði væru til að staðfesta lögbannsgerðina. Talið var að krafa Jónínu um lögbann væri í senn of víðtæk og óákveðin til þess að taka mætti hana til greina og var kröfu hennar um staðfestingu lögbannsins því hafnað. Ekki var talið að krafa Jónínu um staðfestingu á ákvörðun sýslumanns um töku fyrrgreindra gagna úr vörslum 365 Prentmiðla kæmi til álita, þar sem ekki yrði leitað sjálfstæðs dóms um slíka ráðstöfun. Jónína krafðist þess jafnframt að Kára Jónassyni, ritstjóra Fréttablaðsins, yrði gerð refsing fyrir brot gegn 2. mgr. 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kom ekki til álita að Kára yrði gerð refsing samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laganna þar sem ætluðum verknaði hans var ekki lýst með þeim hætti í héraðsdómsstefnu og dómkrafa um refsingu við það miðuð að ákvæðið gæti átt við. Fallist var á með Jónínu að skrif Fréttablaðsins um fjárhagsleg málefni hennar hafi lotið að einkamálefnum í merkingu 229. gr. laganna, svo og það efni þessara skrifa, þar sem greint var frá hvatningum Jónínu og öðrum hlut hennar sjálfrar í ráðagerðum um að kæra nafngreinda menn. Litið var til þess að skrif Fréttablaðsins hefðu haft að geyma efni, sem ætti erindi til almennings og varðaði mál, sem miklar deilur hefðu staðið um í þjóðfélaginu. Þótt jafnframt hefði verið greint frá fjárhagsmálefnum Jónínu í umfjöllun Fréttablaðsins var talið að þau væru svo samfléttuð fréttaefninu í heild að ekki yrði greint á milli. Var fallist á með 365 Prentmiðlum að ekki hefði verið gengið nær einkalífi Jónínu en óhjákvæmilegt væri í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning. Að þessu virtu var lagt til grundvallar að nægar ástæður hefðu verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa blaðsins og Kára ekki gerð refsing samkvæmt ákvæðinu.

Skilgreining   á eðli máls Niðurstaða dóms Bótaupphæð Bótaupphæð   (framreiknuð til 2013) Málskostnaður Hver er ábyrgur Dómurundirréttar   (hvaða ?)
Friðhelgi   einkalífs Sýkna 0 0 Málskostnaður felldur niður Ekki tekin afstaða Héraðsdómur reykjavíkur, sýkna

 

Slóð á dóm: http://www.haestirettur.is/domar?nr=3949&leit=t