2009 Helga Haraldsdóttir gegn Ólöfu Ósk Erlendsdóttur, Magnúsi Einarssyni og Erlu Hlynsdóttur og Erla Hlynsdóttir gegn Helgu Haraldsdóttur

elga Haraldsdóttir höfðaði mál til ómerkingar nánar tilgreindra ummæla í fjórtán stafliðum, sem birtust í grein í DV í ágúst 2007. Tilefni greinarinnar var rannsókn á málefnum Guðmunds Jónssonar, forstöðumanns Birgisins, eiginmanns Helgu, sem var sakfelldur með dómi Hæstaréttar í desember 2008 fyrir að hafa ítrekað haft kynferðismök við konur, sem á þeim tíma voru vistmenn á meðferðarheimilinu Birginu, sem Guðmundur veitti forstöðu. Ein þessara kvenna var Ólöf Ósk Erlendsdóttir. Til grundvallar sakfellingu Guðmundar hafði meðal annars verið lagður framburður vitna sem báru jafnframt að Helga hefði verið þátttakandi í kynlífsathöfnum hans og vistkvennanna með hliðstæðum hætti og lýst var í þremur ummælum, sem höfð voru eftir Magnúsi, fyrrum starfsmanni Birgisins, í greininni. Af þeim sökum var litið svo á að sönnur hefðu verið leiddar að þeim ummælum og var ómerking þeirra því ekki reist á 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ein ummæli til viðbótar voru höfð eftir Magnúsi og var talið að í þeim fælist gildisdómur sem ekki varðaði við tilgreind ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga. Var því hafnað kröfu Helgu um ómerkingu þeirra ummæla sem höfð voru eftir Magnúsi. Önnur ummæli í greininni voru höfð eftir Ólöfu, sem kvaðst muna óljóst eftir samtali við blaðamann DV en kannaðist hins vegar ekki við að hafa viðhaft þessi ummæli. Án tillits til þess hvort tekist hefði að leiða sönnur að ummælum í fjórum liðum, sem höfð voru eftir Ólöfu, var talið að líta yrði til þess að talin voru sönnuð ummæli sem höfð voru eftir Magnúsi og lutu á almennan hátt að þátttöku Helgu í kynferðisathöfnum Guðmundar með vistkonum í Birginu. Að því virtu væri ekki séð að ummæli í þessum liðum hefðu verið til þess fallin að verða virðingu Helgu frekari til hnekkis. Voru því ekki forsendur til ómerkingar þeirra samkvæmt 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hvorki talið að fimm önnur ummæli vörðuðu eftir efni sínu við 234. gr. né 235. gr. almennra hegningarlaga og var kröfu Helgu um ómerkingu þeirra hafnað. Eftir stóðu tvíþætt ummæli í einum lið kröfunnar. Fyrri hluti þeirra var talinn fela í sér gildisdóm sem varðaði ekki við tilfærð ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga og voru þau því ekki ómerkt. Hins vegar var talið að með vísan til 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga bæri að ómerkja síðari hluta ummælanna: „... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni við grunnskóla.“ Með þessum orðum væri gefið til kynna að Helga hefði gerst sek um refsivert athæfi, sem ekki hefði verið sannað. Þar sem ekki voru leiddar sönnur að því að þessi ummæli hefðu verið höfð eftir Ólöfu var talið að Erla Hlynsdóttir bæri skaðabótaábyrgð samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, enda hefði hún verið nafngreind með fullnægjandi hætti sem höfundur greinarinnar. Var Erlu gert að greiða Helgu 300.000 krónur í miskabætur og 100.000 krónur til þess að standa straum af kostnaði við birtingu dómsins. 

Skilgreining   á eðli máls Niðurstaða dóms Bótaupphæð Bótaupphæð   (framreiknuð til 2013) Málskostnaður Hver er ábyrgur Dómur   undirréttar (hvaða ?)
Meiðyrði Sekt 400000 477377,09 600000 Erla Hlynsdóttir, höfundur   greinarinnar Héraðsdómur Reykjavíkur   staðfestur að hluta, fjöldi ummæla sem var gerður ómerkur ekki sami. 

 

Slóð á dóm: https://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=e35a6dcc-9a57-45e0-b5dc-cbaa265fc4d9