- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Eiður Smári Guðjohnsen höfðaði mál gegn Inga Frey Vilhjálmssyni blaðamanni, Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni ritstjórum, vegna umfjöllunar dagblaðsins DV um fjármál Eiðs sem birtist í dagblaðinu sjálfu og á vefriti þess. Taldi Eiður að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs hans og að gera ætti Inga, Reyni og Jóni refsingu samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæma þá til að greiða sér miskabætur og fé til að standa straum af birtingu dómsins. Óumdeilt var að Ingi bæri ábyrgð samkvæmt þágildandi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt á því efni sem birtist í dagblaðinu og hann var nafngreindur sem höfundur að. Á öðru efni báru Reynir og Jón ábyrgð sem ritstjórar dagblaðsins samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Þar sem Ingi hafði engin gögn fært fram um að hann hefði gert athugasemdir við ritstjóra eða útgefendur vefrits DV við það að honum væri þar ítrekað eignað efni um Eið sem hann taldi sig ekki höfund að var talið sannað að hann væri höfundur þess efnis og að kröfum vegna þess væri því réttilega beint að honum. Ekki var fallist á að Reynir og Jón bæru á grundvelli lögjöfnunar frá 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 ábyrgð á efni um Eeið sem birtist á vefriti DV og var ekki merkt tilteknum höfundi. Tekið var fram að 3. mgr. 15. gr. laganna væri í eðli sínu hlutlæg og því undantekning frá meginreglum laga um sök sem grundvöll ábyrgðar. Einnig yrði að gæta varúðar við að byggja refsiheimild á lögjöfnun, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga. Aftur á móti var talið að á Reynir og Jón hefði hvílt eftirlitsskylda sem ritstjórum vefritsins. Saknæm vanræksla þeirra á að sinna þessari eftirlitsskyldu kynni að varða þá ábyrgð og þótti málinu því ekki ranglega beint að þeim vegna þessa efnis. Tekið var fram að þegar metið væri hvar mörkin lægju milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs yrði að líta til stöðu þjóðfélagsmála á hverjum tíma, hvaða málefni bæru hæst í opinberri umræðu og væru almennt talin miklu varða. Þótti umfjöllun DV um lántökur Eiðs lýsa dæmigerðu ferli um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kynni að hafa átt þátt í því hruni sem varð í íslensku efnahagslífi við fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 og hefði haft mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. Við þessar aðstæður gæti skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um þessi fjárhagsmálefni Eiðs ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Um umfjöllun dagblaðsins og vefritsins um laun Eiðs frá tilteknu knattspyrnufélagi tók Hæstiréttur fram að Eiður væri þjóðþekktur sem atvinnumaður í knattspyrnu og hefði ekki vikist undan því að vera í sviðsljósi fjölmiðla sem slíkur. Launamál þekktra atvinnuknattspyrnumanna væru reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum og tengdust því starfi Eiðs sem hann væri þjóðþekktur fyrir. Var talið að umfjöllun DV teldist að þessu leyti ekki brot á friðhelgi einkalífs Eiðs. Loks var ekki fallist á að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs Eiðs með umfjöllun vefrits DV um spilafíkn Eiðs. Vísað var til þess að um hefði verið að ræða endursögn umfjöllunar sem áður hafði birst opinberlega hjá öðrum fjölmiðlum og að Eiður hefði sjálfur gert spilafíkn sína að umtalsefni í viðtölum. Voru Ingi, Reynid og Jón því sýknaður af kröfum Eiðs.
Skilgreining á eðli máls | Niðurstaða dóms | Bótaupphæð | Bótaupphæð (framreiknuð til 2013) | Málskostnaður | Hver er ábyrgur | Dómur undirréttar (hvaða ?) |
Friðhelgi einkalífs | Sýkna | 0 | 0 | Málskostnaður felldur niður | Ekki tekin afstaða | Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi blaðamenn og ritstjóra seka og til greiðslu miskabóta og málskostnaðar |