- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kim Gram Laurensen höfðaði mál gegn blaðamanninum Jóni Bjarka Magnússyni og krafðist m.a. ómerkingar ummæla sem birst höfðu í grein eftir Jón í DV. Ummælin varða samskipti Kims við dætur sínar og barnsmóður, og aðdróttanir um ofbeldi gagnvart þeim. Því var ekki mótmælt af hálfu Jóns að ummælin hefðu falið í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð Kims í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jón byggði sýknukröfu sína á því blaðamönnum væri í vissum tilvikum heimilt að hafa ummæli eftir viðmælendum sínum og að í ljósi nýrra laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sem tóku gildi eftir að málið var höfðað, bæri hann ekki ábyrgð á ummælunum. Það var m.a. niðurstaða Hæstaréttar að þótt ómerking ummæla á grundvelli 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 teldist til refsikenndra viðurlaga væri hún í eðli sínu staðfesting á því að óviðurkvæmileg ummæli skuli vera að engu hafandi. Yrði því úrræði ekki jafnað til íþyngjandi viðurlaga á borð við réttindasviptingu í merkingu 2. mgr. 2. gr. laganna. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummælanna, en miskabætur lækkaðar.