Mál 3/1998 - 99

Kærandi: Ástþór Magnússon persónulega og vegna Friðar 2000.
Kærði: Stefán Jón Hafstein, ritstjóri Dags.
Kæruefni: Ritstjórnargrein, frásögn og fréttaskýring í Degi í nóvember 1998, um Ástþór Magnússon, Frið 2000 og Norðurpólinn á Akureyri.

Kærandi sendi nefndinni kæru í bréfi dags. 14. nóvember 1998. Í framhaldi af umræðu í siðanefnd 16. nóvember 1998 var óskað frekari gagna frá kærendum. Bárust þau með bréfi dags. 22. nóvember 1998.

Kærða var kynnt kæran. Af hans hálfu voru sendar athugasemdir í rafpósti 14. desember 1998 þar sem krafist var frávísunar frá iðanefnd. Frá Degi hafa borist ljósrit athugasemda sem blaðið birti frá Kristjáni Árnasyni. En hann taldi hluta umfjöllunar Dags vega með óréttmætum hætti að æru sinni.

Málsatvik og önnur atvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þau, að Dagur, sem ritstýrt er af kærða, fjallaði í fréttum og fréttaskýringum í nóvember 1998 um svokallað jólaþorp á Akureyri, sem gengur undir nafninu Norðurpóllinn. Til þorps þessa var stofnað af aðilum í verslun og ferðaþjónustu á Akureyri, m.a. í þeim tilgangi að laða ferðamenn til bæjarins fyrir jólin og gefa Íslendingum tækifæri á að gefa stríðshrjáðum börnum jólagjafir.

Af gögnum má ráða að í upphafi hafi ætlunin verið sú að Norðurpóllinn og Friður 2000 ættu samstarf um þessa jólapakkasöfnun. Úr því varð ekki. Forsvarsmenn aðila tjáðu sig mjög fjálglega um ástæður þess að ekkert varð úr samstarfinu í viðtölum í fjölmiðlum, m.a. í frétt í Degi í nóvember 1998 undir fyrirsögninni „Deila um góðu málin".

Stefán Jón Hafstein ritstjóri Dags skrifaði ritstjórnargrein í blaðið 11. nóvember 1998 undir fyrirsögninni „Góðgerðarbransinn". Er þar annars vegar vikið að starfsemi og baráttumálum Ástþórs agnússonar og Friðar 2000 og hins vegar „Jólabæjarsamtökunum á Akureyri". Í niðurlagi ritstjórnargreinarinnar víkur höfundur að hörmungum fórnarlamba náttúruhamfara í ið-Ameríku og hvetur landsmenn til að ljá þeim lið með fjárframlögum.

Tilefni ritstjórnargreinarinnar virðist umfjöllun fjölmiðla, þ.á.m. Dags, um ágreining forsvarsmanna Norðurpólsins annars vegar og Ástþórs Magnússonar og Friðar 2000 hins vegar um söfnun og sendingu jólapakka til barna í stríðshrjáðum löndum Evrópu eða Asíu.

Sama á við um fréttaskýringu Björns Þorlákssonar, sem birtist í Degi þann frá 11. nóvember 1998 undir fyrirsögninni „Græðgin er óseðjandi púki".

Kærandi kom sjónarmiðum sínum og Friðar 2000 á framfæri í grein sem hann ritaði og fékk birta í Degi 14. nóvember 1998. Birtingu þeirrar greinar var að sögn kærða, Stefáns Jóns Hafstein, flýtt fyrir orð kæranda og gefið veglegt rými á áberandi stað í Degi.

Umfjöllun

Þegar litið er til umfjöllunar Dags um málefni Norðurpólsins annars vegar og Ástþórs Magnússonar og Friðar 2000 hins vegar í tengslum við þann ágreining, sem upp virðist hafa komið milli þessara aðila um söfnun jólapakka á Akureyri, verður ekki séð að hún fari á nokkurn hátt í bága við siðareglur blaðamanna. Hefur kærandi heldur ekki í kærugögnum tilgreint nein þau ákvæði siðareglna Blaðamannafélags Íslands sem hann telur kærða hafa brotið. Ber því með vísan til 7. gr. vinnureglna Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands að vísa erindi þessu frá.

Úrskurður

Kæru Ástþórs Magnússonar og Friðar 2000 er vísað frá Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.

Reykjavík, 21. desember 1998

Þorsteinn Gylfason, Mörður Árnason, Hjörtur Gíslason, Hreinn Pálsson, Sigurður G. Guðjónsson