Mál 3/2001-2002

Kærandi: Þórunn Aðalsteinsdóttir, kt: 130134-2469, Reykjavík.
Kærði: Eiríkur Jónsson, blaðamaður á DV, Reykjavík.
Kæruefni: Viðtal Eiríks Jónssonar blaðamanns við Ólaf Sigurvinsson, sem birtist á Eir-síðunni í DV þann 1. október 2001.

Málavextir

Kæra vegna sama viðtals barst siðanefnd Blaðamannafélags Íslands með ódagsettu bréfi frá Elínu Ólafsdóttur, Berglindi Ólafsdóttur og Aðalsteini Ólafssyni, sem í kærunni kveðast vera börn Ólafs Sigurvinssonar og Þórunnar Aðalsteinsdóttur.

Siðanefnd tók kæru þessa fyrir á fundi sínum þann 29. október 2001. Á þann fund kom einn kærenda, Berglind Ólafsdóttir, Erluhólum 5, Reykjavík, og gerði nokkra grein fyrir máli þeirra. Kom m.a. fram hjá henni, að hún og systkini hennar hefðu fengið birta yfirlýsingu í Morgunblaðinu þann 4. október 2001, eftir að þau höfðu árangurslaust reynt að fá leiðréttingu málsins hjá DV. Í þessari yfirlýsingu kemur efnislega fram, að kærendur segjast þekkja vel til hvernig hjónaband foreldra þeirra, Þórunnar og Ólafs, hafi verið og ekkert í frásögn föður þeirra í viðtalinu í DV eigi við rök að styðjast. Eiríkur Jónsson blaðamaður sem og faðir þeirra Ólafur Sigurvinsson megi því eiga von á lögsókn vegna viðtalsins.

Siðanefndin hafði fyrir fundinn 29. október fengið bréf dagsett 23. október 2001 frá kærða, Eiríki Jónssyni, þar sem fram kom afstaða hans til kæruefnisins.

Niðurstaða siðanefndar varðandi kæru Elínar, Berglindar og Aðalsteins var sú, að vísa bæri kæru þeirra frá á grundvelli 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands, þar sem kærendur hefðu ekki hagsmuna að gæta varðandi viðtal Eiríks Jónssonar við Ólaf Sigurvinsson.

Með bréfi dagsettu 14. nóvember 2001 barst siðanefnd kæra frá Þórunni Aðalsteinsdóttur á hendur Eiríki Jónssyni vegna áðurgreinds viðtals Eiríks Jónssonar við Ólaf Sigurvinsson.

Af kærunni verður helst ráðið, að kærandi geri þá athugasemd eina við viðtal Eiríks Jónssonar við Ólaf Sigurvinsson, þar sem í því segir:

Hitt sé líklegra að hún hafi haft einhverjar milljónir af sér en við það nenni hann ekki að elta ólar lengur.

Á þeim tíma, er Eiríkur Jónsson tók það viðtal, sem kæran lýtur að, var til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál ákæruvaldsins gegn Þórunni Aðalsteinsdóttur, kt. 130135-6849, Erluhólum 5, Reykjavík og Aðalsteini Ólafssyni kt. 060972-3039, Skeggjagötu 3, Reykjavík. Á hendur Þórunni var málið höfðað vegna meintra fjársvika hennar gagnvart sjö einhleypum eldri karlmönnum og gagnvart Þórunni og Aðalsteini fyrir misneytingu gagnvart einum eldri karlmanni og gagnvart Aðalsteini fyrir hylmingu í tengslum við meint brot Þórunnar. Þá voru í refsimáli þessu, sem ákæra hafði verið gefin út í þann 9. mars 2001, hafðar uppi háar bótakröfur fyrir hönd þeirra einstaklinga, sem meint brot Þórunnar og Aðalsteins höfðu beinst að. Aðalmeðferð máls þessa fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í lok september og byrjun október og var það dómtekið þann 3. október síðast liðinn.

Fjölmiðlar, þar á meðal DV, fylgdust með meðferð máls þessa bæði á frumstigum rannsóknar og eins aðalmeðferðinni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og birti fréttir af því. Í fréttum fjölmiðla var m.a. greint frá því, sem komið hafði fram við skýrslugjöf vitna í málinu. Í viðtali Eiríks Jónssonar við Ólaf Sigurvinsson, sem birtist í DV þann 1. október 2001, og ekki er haldið fram í kæru að sé rangt, kom fram að við réttarhöldin í héraðsdómi hefði verið upplýst, að Þórunn hafi sagt fórnarlömbum brota sinna, að fyrrum eiginmaður hennar, Ólafur Sigurvinsson, hefði verið alkóhólisti og endað líf sitt á Kleppi. Í bréfi Eiríks Jónssonar til siðanefndar vegna kæru Elínar, Berglindar og Aðalsteins sem hann óskaði að láta gilda sem svar við kæru Þórunnar, kemur fram, að Ólafur Sigurvinsson, hafi af þessu tilefni haft samband við hann til að gera athugasemdir við ósannsögli fyrrum eiginkonu sinnar. Eiríkur Jónsson kveðst í þessu sama bréfi hafa í þrígang rætt við Ólaf Sigurvinsson, sem í öll skiptin hafi verið allsgáður og virst í fullkomnu jafnvægi. Í kæru er því hins vegar haldið fram, að Ólafur kæmist ekki í gegnum daginn án þess að dópa sig með alls kyns lyfjum sem hafi áhrif á dómgreind hans.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn í máli ákærðu, Þórunnar og Aðalsteins, þann 29. október 2001. Var Aðalsteinn sýknaður af öllum kröfum en Þórunn dæmd í tveggja ára fangelsi og til greiðslu skaðabóta til fórnarlamba brota hennar.

Umfjöllun

Ekki kemur það fram í kæru Þórunnar til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands, að hún hafi leitað leiðréttingar mála sinna hjá DV vegna viðtals Eiríks Jónssonar við Ólaf Sigurvinsson, eins og þó ber að gera áður en kært er siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sbr. 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Siðanefnd lítur svo á að þessu skilyrði sé engu að síður fullnægt, þar sem börn hennar hafi leitað leiðréttinga hjá DV fyrir hennar hönd. Hefur þessu ekki verið andmælt af Eiríki Jónssyni í bréfi hans til siðanefndar.

Siðanefnd hefur engin efni til að rengja frásögn Eiríks Jónssonar af samskiptum hans við Ólaf Sigurvinsson þegar viðtal það var tekið sem birtist í DV þann 1. október 2001.

Úrskurður

Eiríkur Jónsson telst ekki hafa brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands.

Reykjavík, 3. desember 2001

Þorsteinn Gylfason, Sigurveig Jónsdóttir, Hjörtur Gíslason, Hreinn Pálsson, Sigurður G. Guðjónsson