Mál 5/2002-2003

Kærendur: Oddný Mjöll Arnardóttir héraðsdómslögmaður f.h. NN og NN.
Kærði: Páll Ásgeir Ásgeirsson blaðamaður á DV og Óli Björn Kárason aðalritstjóri DV.
Kæruefni: Umfjöllun um sakamál sem birtist í DV laugardaginn 21. september 2002 undir fyrirsögninni: „Myrti ókunna konu í stundarbrjálæði".

Kæra barst siðanefnd með bréfi Oddnýjar Mjallar Arnardóttur hdl., lögmanns kærenda, dags. 1. október 2002. Lögmaðurinn óskaði nafnleyndar kærenda. Páll Ásgeir Ásgeirsson sendi siðanefnd athugasemdir sínar í tveimur tölvubréfum 28. október. Engar athugasemdir bárust frá Óla Birni Kárasyni aðalritstjóra DV. iðanefnd fjallaði um mál þetta á fundum sínum 14. og 28. október og 4. og 11. nóvember 2002.

Málavextir

Laugardaginn 21. september 2002 birtist í helgarblaði DV grein undir fyrirsögninni „Myrti ókunna konu í stundarbrjálæði". Undir greininni eru upphafsstafirnir PÁÁ sem eru fangamark Páls Ásgeirs Ásgeirssonar blaðamanns. Kveður Páll greinina hafa verið unna með sama hætti og um það bil 40 aðrar greinar sem birst hafa í helgarblaðinu frá haustinu 2001 og fjalla um íslensk sakamál. Stuðst er við dómasafn Hæstaréttar og umfjöllun dagblaða um málin.

Kærendur, sem eru aðstandendur hinnar myrtu, telja að upplýsingar sem fram koma í greininni séu persónugreinanlegar, þótt ekki sé um nafnbirtingu að ræða, þar sem öllum aðstandendum hafi verið fullljóst af atvikalýsingu, staðsetningu og tímasetningu málsins um hvaða einstaklinga sé að ræða. Kærendur telja að höfundi greinarinnar og ritstjórn DV hafi átt að vera ljóst að birting greinarinnar myndi valda þeim sársauka og raska tilfinningum þeirra. Telja kærendur að umfjöllun um málið hafi verið án sýnilegs tilgangs og að hún hafi ekkert fréttagildi nú 14 árum eftir að atburðirnir áttu sér stað og að umræðan snerti ekki lýðræðislega umfjöllun á nokkurn hátt.

Kærendur telja ennfremur að við vinnslu greinarinnar hafi blaðamaðurinn viðhaft óvönduð vinnubrögð þar sem fjallað er um meinta kynhegðun hinnar látnu, með því að við lýsingu málavaxta hafi blaðamaður lagt til grundvallar framburð hins dæmda fyrir dómi og látið að því liggja að frásögn hans um atvik málsins hafi verið rétt. Umfjöllun blaðamanns um málatvik hefst á orðunum: „Það sem gerðist var..." og síðan er rakinn framburður ákærða eins og honum er lýst í héraðsdómi.

Kærendur benda sérstaklega á að framburður ákærða um samskipti hans við hina látnu hafi ekki þótt trúverðugur, og var lýsing hans á atvikum málsins ekki lögð til grundvallar dómi Hæstaréttar. Kærendur telja að dregin hafi verið upp neikvæð mynd af hinni látnu sem vanvirði minningu hennar, valdi aðstandendum hennar óþarfa sársauka og raski friðhelgi einkalífs.

Kærendur kveðast hafa leitað leiðréttingar mála sinna hjá DV, án árangurs.

Páll Ásgeir Ásgeirsson segir að greinin sé byggð á gögnum Hæstaréttar og ekki sé hægt að lesa úr henni einhverja sérstaka afstöðu blaðamanns til þess hvort farið hafi verið með rangt mál fyrir réttinum eða ekki. Hann telur þó að rétt hefði verið að taka sérstaklega fram að Hæstarétti hafi þótt skýrslur sakborningsins, um atburði sem gerðust eftir að hann var orðinn einn með fórnarlambi sínu, „ekki trúverðugar".

Páll Ásgeir tekur fram, að fundur sem kærendur áttu með honum í kjölfar birtingar greinarinnar hafi ekki snúist um að þeir væru að „leita leiðréttingar" og að beiðni um slíkt hafi aldrei komið fram. Því sé alrangt hjá kærendum að þeir hafi leitað leiðréttingar hjá DV.

Páll Ásgeir telur loks, að greinin hafi ekki varpað neinum skugga á mannorð fórnarlambsins eða sært tilfinningar aðstandenda umfram það sem öll umfjöllun um málið sé líkleg til að gera.

Umfjöllun

Siðanefnd telur að kærendur verði að sæta því að fjallað sé opinberlega um dómsmál það sem blaðamaður fjallaði um. Siðareglur leggja engar hömlur á frelsi fjölmiðla til slíkrar umfjöllunar. Blaðamenn verða þó að gæta þess, við úrvinnslu og framsetningu, að sýna fyllstu tillitssemi. Einkum er það brýnt við umfjöllun um viðkvæm sakamál eins og mál það sem hér er til umfjöllunar.

Siðanefnd telur hins vegar að Páli Ásgeiri Ásgeirssyni hafi borið að geta þess vandlega, að frásögn af málinu væri byggð á framburði ákærða, og að sú frásögn hafi ekki verið talin trúverðug fyrir dómi. Í greininni er byggt á þessum framburði og látið að þvíliggja að þar sé raunverulegum atburðum rétt lýst. Blaðamaðurinn hefur því ekki vandað úrvinnslu og framsetningu greinarinnar svo sem kostur er, og hefur greinin þar með valdið kærendum óþarfa sársauka.

Málsaðilum ber ekki saman um hvort farið hafi verið fram á leiðréttingu á fundi þeirra um málið. Siðanefnd telur þó að ákvæðum 6. greinar um að leita skuli leiðréttingar hafi verið fullnægt með fundinum.

Úrskurður

DV var heimilt að fjalla um sakamál þetta. Óli Björn Kárason aðalritstjóri telst ekki hafa brotið siðareglur. Páll Ásgeir Ásgeirsson telst hafa brotið gegn 3. gr. siðareglna. Brotið er alvarlegt.

Reykjavík 11. nóvember 2002

Þorsteinn Gylfason, Ásgeir Þór Árnason, Hreinn Pálsson, Hjörtur Gíslason, Sigurveig Jónsdóttir