Mál 8/2002-2003

Kærandi: Sigurður Björgvinsson, skólastjóri Víðistaðaskóla
Kærði: DV
Kæruefni: Fréttaflutningur DV af lyfjagjöf í Víðistaðaskóla. Málið var kært með bréfi dagsettu 6. febrúar 2003 og barst það nefndinni 17.2. og var tekið fyrir á fundum nefndarinnar 24.2., 10.3., 17.3. og 24.3. Greinargerð ritstjóra og umsögn blaðamanns bárust nefndinni 17.3.

Málavextir

Hinn 28. janúar s.l. birtist í DV frétt á síðu 2 undir fyrirsögninni „Bara glæpur og ekkert annað". Vísað var til fréttarinnar á forsíðu blaðsins með fyrirsögninni „Skólar skammta ritalín". Í fréttinni segir af föður sem hafði samband við blaðið í framhaldi fréttar um ritalíngjöf til barna í Grafarvogi. Umræddur faðir lýsir þeirri skoðun sinni í blaðinu að ritalíngjöf til barna sé glæpur og eftir honum er haft að skólayfirvöld afhendi honum reglulega ritalín. itnað er til fulltrúa skólaskrifstofu Hafnarfjarðarbæjar sem segir að sér sé ekki kunnugt um ritalín sé gefið að frumkvæði grunnskóla. agðist fulltrúinn ætla að láta kanna hvað hæft væri í málinu. Hvorki var leitað viðbragða hjá stjórnendum Víðistaðaskóla né heilbrigðisyfirvöldum.

Kærandi kom athugasemdum strax á framfæri við DV, jafnframt hafði Helgi E. Helgason, upplýsingafulltrúi kennarasambandsins samband við DV vegna sama máls. Ritstjóri DV, igmundur Ernir Rúnarsson, sendir Helga tölvubréf 30. janúar og þar segir: „Fréttin fór hálfunnin í prentun vegna mistaka, þar vantaði klárlega viðbrögð og sjónarmið skólastjóra... Ég ... veit að í fréttinni var hallað réttu máli. Ég harma þessi mistök og mun beita mér fyrir að fréttaflutningur okkar af þessu máli fari á réttar brautir."

Daginn eftir, 31. janúar, birtist frétt á síðu 6 í DV undir fyrirsögninni „Ekki ætlunin að ráðast á neinn" og í undirfyrirsögn biðst viðmælandi blaðsins afsökunar á óheppilegu orðalagi. Í fréttinni er haft eftir skólastjóra að skólinn úthluti ekki lyfjum, öll lyfjagjöf sem kunni að eiga sér stað þar sé á ábyrgð heilsugæslunnar. Þá segir að skólastjórinn geti ekki setið undir þeim ásökunum sem komu fram í upphaflegu fréttinni og að hann krefjist afsökunarbeiðni. Í sömu frétt er vitnað til upphaflegs viðmælanda sem segir m.a.: „Ég ætlaði mér ekki að vera með persónulegar árásir á neinn í Víðistaðaskóla þó eflaust hafi mátt skilja orð mín svo... Það getur vel verið að ég hafi að einhverju leyti tekið fulldjúpt í árinni gagnvart skólanum og orðað þetta óheppilega og sjálfsagt er að biðjast afsökunar á því."

Sama dag og seinni fréttin birtist sendir Sigurður Sigmundi Erni, ritstjóra, ítarlegt tölvuskeyti þar sem hann rekur sögu málsins og samskiptin við blaðamann DV frá sínu sjónarhorni. Sigurður kveður viðmælanda DV vera „með aumt og óljóst yfirklór" sem segi afskaplega lítið og hann bendir á að ekki sé tekið fram á hverju sé beðist afsökunar. Í skeytinu segir einnig: „Það væri því að mínu mati happadrýgst fyrir blaðið og skólann að birt væri í blaðinu afsökunarbeiðni ykkar og þar með væri málinu lokið."

Sigmundur Ernir svarar skeyti Sigurðar seinna sama dag og segir m.a.: „Ég skil viðbrögð þín ágætlega enda voru þær almennu vinnureglur brotnar við gerð þessarar fréttar að leita beggja eða fleiri sjónarmiða í hverju máli... Ég harma að almennar vinnureglur hafi verið brotnar við gerð fréttarinnar og það hafi bitnað á þér og þínum ágæta skóla."

Umfjöllun

Í greinargerð ritstjóra til siðanefndar segir: „Fyrsta frétt blaðsins af þessu máli byggðist á viðtali við föður barns í umræddum skóla. anninum er frjálst að viðra skoðanir sínar á síðum blaðsins, enda talar hann þar undir fullu nafni. Blaðamanni var gert að hafa samband við skólayfirvöld sem gagnrýni föðurins beindist að og var það gert. Viðbrögð þeirra voru birt með fréttinni." Með þessum ummælum virðist ritstjórinn leggja almenn greinaskrif og fréttaflutning að jöfnu. Benda má á að jafnvel þótt greinar séu ritaðar undir fullu nafni fæst ekki hvaða grein sem er birt í dagblöðum. Blaðamenn bera ábyrgð á fréttum sínum, rétt eins og greinarhöfundar á greinum sínum. Alkunna er að margar fréttahugmyndir verða ekki að frétt vegna mats blaðamanna og ritstjóra. Blaðamönnum er að sjálfsögðu frjálst að birta skoðanir nafngreindra manna í fréttum en jafnframt ber þeim að fara að siðareglum. Almenn vinnuregla blaðamanna er að leita eftir sjónarmiðum þess sem er skotspónn fréttar. Ritstjóri segir það hafa verið gert og í umsögn blaðamanns kemur fram að leitað hafi verið til „æðstu skólayfirvalda í Hafnarfirði" og haft hafi verið samband við agnús Baldursson fulltrúa skólaskrifstofu Hafnarfjarðar. Í fréttinni og umsögn blaðamanns kemur fram að agnús kannast ekki við að ritalín sé gefið í grunnskólum að frumkvæði skólayfirvalda. Þessi ummæli agnúsar gefa enn frekari ástæðu til að leita viðbragða hjá stjórnendum Víðistaðaskóla og eftir atvikum heilbrigiðsyfirvalda, á meðan unnið var að fréttinni.

Afsökunarbeiðnin sem birtist 31. janúar er óljós og hún kemur frá viðmælanda blaðsins. Hvergi kemur fram í blaðinu að ritstjórn þess harmi hvernig staðið var að fréttinni né að stjórnendur og starfsfólk Víðistaðaskóla sé beðið afsökunar fyrir hönd blaðsins. iðanefnd er sammála því sem kemur fram í tölvuskeyti Sigmundar Ernis, til upplýsingafulltrúa Kennarasambandsins, um að klárlega hafi vantað viðbrögð og sjónarmið skólastjóra. Telja verður að almennar vinnureglur blaðamanna um vandaða upplýsingaöflun hafi verið brotnar við gerð fréttarinnar. Telja má DV til málsbóta að brugðist er skjótt við er þeim bárust viðbrögð skólastjóra, önnur frétt fylgir í kjölfar hinnar fyrri og þar dregur viðmælandi blaðsins úr ásökunum sínum og setur fram almenna afsökunarbeiðni, hafi hann tekið fulldjúpt í árinni og orðað hugsun sína óheppilega í garð skólans. iðanefnd telur hins vegar, vegna annmarka í vinnslu fréttarinnar, að DV hefði átt að birta skýra og ótvíræða afsökunarbeiðni sína í blaðinu.

Úrskurður

DV telst hafa brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Brotið er alvarlegt.

Reykjavík 24.3. 2003

Hjörtur Gíslason, Ásgeir Þór Árnason, Hreinn Pálsson, Jóhannes Tómasson, Sigurveig Jónsdóttir