Mál nr. 1 2008/2009

Kærandi: Kristján Sveinbjörnsson
Kærði: Fréttablaðið, Garðar Örn Úlfarsson blaðamaður og Þorsteinn Pálsson ritstjóri.
Kæruefni: Frétt Fréttablaðsins, skrifuð af Garðari Erni, birt þann 18. maí 2008 undir fyrirsögninni „Yfirvaldið á Álftanesi sagt hunsa Hæstarétt".

Málsmeðferð

Kæran barst siðanefnd í bréfi dagsettu 17. júlí 2008 og fylgdu henni 6 tölusett fylgiskjöl. Kæran var í 8 afmörkuðum liðum og taldi kærandi að skrif Fréttablaðsins væru brot á 1., 3., 4., og 5. grein siðareglna BÍ. Þá fór kærandi fram á að „siðanefnd gefi út úrskurð um framgöngu Fréttablaðsins, blaðamannsins Garðars Arnars Úlfarssonar og ritstjórans Þorsteins Pálssonar." Vegna sumarleyfa reyndist ekki unnt að taka kæruna fyrir í siðanefnd BÍ fyrr en 8. september. Þá var leitað viðbragða frá hinum kærða og málið síðan tekið fyrir á fundum nefndarinnar 29. september og 6. október. Viðbrögð frá Fréttablaðinu bárust í bréfi dagsettu 18. september. Þar var farið fram á það að vegna ágalla í kærunni skyldi henni vísað frá, en engu að síður gerðar athugasemdir við hina 8 liði kærunnar. Bæði Þorsteinn Pálsson og Garðar Örn Úlfarsson andmæltu kærunni og fylgdu erindi þeirra 15 fylgiskjöl.

Málavextir

Mál þetta fjallar um úthlutun lóðar í sveitarfélaginu Álftanesi og byggingu húss á henni og á sér að minnsta kosti tveggja ára aðdraganda ef marka má umfjöllun Fréttablaðsins um málið og dómsmál því tengd. Eignarhaldsfélagið Hald, en þar er í forsvari Henrik Thorarensen, hafði fengið úthlutað byggingarlóð á Álftanesi, nánar tiltekið að Miðskógum 8 og leyfi til að byggja á lóðinni samkvæmt ákveðnum skilyrðum skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins. Hald sótti um leyfi til byggingar húss á lóðinni sem ekki samræmdist kröfum um hámarks stærð og var leyfinu því hafnað. Þeirri niðurstöðu undi Hald ekki og fór með málið fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Aðalkarfa Halds var eftirfarandi: „Að felld verði úr gildi með dómi sú ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar stefnda frá 13. nóvember 2006 og samþykkt bæjarstjórnar stefnda frá 14. nóvember 2006, að synja stefnanda um útgáfu byggingarleyfis á lóð stefnanda að Miðskógum 8, Álftanesi. Jafnframt að viðurkenndur verði réttur stefnanda til að fá útgefið leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni á grundvelli fyrirliggjandi teikninga Hlédísar Sveinsdóttur arkitekts."

Niðurstaða Héraðsdóms var sú að stefndi, sveitarfélagið Álftanes, væri sýkn af aðalkröfu stefnanda Halds ehf.. Enda kom fram í dómnum að framlagðar teikningar að húsbyggingunni væru ekki í samræmi við framlögð skipulagsákvæði.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og tekið fyrir þar 17. apríl 2008. Niðurstaða Hæstaréttar var að Héraðsdómur skyldi verða óraskaður. Í dómsniðurstöðu segir ennfremur: „Í fyrrnefndum skilmálum frá 26. október 1981 er meðal annars að finna ákvæði um að á lóðum úr landi Skógtjarnar megi reisa einnar hæðar íbúðarhús og skuli ris á þaki ekki vera meira en 20°. Hæð útveggja frá gólfplötu að þakrennukanti megi ekki vera meira 2,6 m, en um svokallaða hæðarafsetningu íbúðargólfs er vísað til hæðarblaðs með nánar tilteknum skýringum. Samkvæmt uppdráttum af fyrirhuguðu húsi á lóð áfrýjanda átti hluti þess að vera tvílyft, þar sem gert var ráð fyrir svonefndum útsýnisturni. Í bréfi hönnuða hússins til stefnda 10. júlí 2006 var sem fyrr segir tekið fram að vikið væri frá skilmálum að því er varðaði hæð þaks á turni þessum. Áfrýjandi átti ekki rétt á að fá gefið út byggingarleyfi fyrir mannvirki, sem þannig var ástatt um, sbr. 43. gr. laga nr. 73/1997. Stefnda var því rétt að hafna umsókn hans á þeim grundvelli.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki litið svo á að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð stefnda að valdið geti ógildingu þeirra ákvarðana, sem dómkrafa áfrýjanda lýtur að. Samkvæmt því verður niðurstaða dómsins staðfest."

Svo virðist, miðað við málarekstur þennan, að deilan um lóð og byggingu húss á henni hafi ekki staðið um það hvort þar megi, samkvæmt gildandi skipulagi, byggja hús, heldur hve stórt það megi vera. Eftir niðurstöðu Hæstaréttar koma síðan fram tillögur sem skipulags- og byggingarnefnd Álftaness hefur haft til umfjöllunar þess efnis að fellt verði úr gildi byggingarleyfi á lóðinni Miðskógum 8 og hún verði skilgreind sem óráðstafað svæði.

Um þetta tvennt, niðurstöðu Hæstaréttar og tillögur að breyttu skipulagi er fjallað í hinni kærðu frétt Fréttablaðsins. Í fréttinni kemur skýrt fram að Hæstiréttur telji að Miðskógar 8 sé byggingarlóð samkvæmt gildandi skipulagi. Hins vegar hafi það verið rétt hjá bæjaryfirvöldum að synja Haldi um byggingu húss á lóðinni samkvæmt fyrirliggjandi teikningum, sem ekki samrýmdust skilmálum deiliskipulags. Í fréttinni er svo leitað álits lögmanns Halds á þeim tillögum sem fyrir liggja um að breyta skipulagi á þann hátt að Miðskógar 8 verði ekki skilgreind sem byggingarlóð. Í fréttinni segir svo: „Ef fyrirætlanir skipulags- og byggingarnefndar og sveitarfélagsins ganga eftir er alveg ljóst að umbjóðandi minn mun ekki láta þær yfir sig ganga," segir Guðmundur Ágústsson, lögmaður Henriks, í bréfi til bæjaryfirvalda á Álftanesi. Guðmundur segir breytingarnar á skipulaginu ekki aðeins svipta Henrik eignarrétti sínum heldur ganga þvert á dóm Hæstaréttar, sem þannig væri gefið „langt nef" auk þess sem bærinn yrði bótaskyldur. Það er til þessara ummæla, sem vísað er til í fyrirsögn hinnar kærðu fréttar.

Í fréttinni kemur einnig fram að kærandi, Kristján Sveinbjörnsson, sem er oddviti meirihluta Álftaneslistans og forseti bæjarstjórnar, hafi beitt sér gegn því að byggt yrði á hinni umdeildu lóð, „en hafi alltaf vísað á bug ásökunum um að afstaða hans markist af eiginhagsmunum. Segist hann einfaldlega telja að ný bygging rúmist ekki á lóðinni, þar sem hún sé svo nærri sjávarkambinum."

Umfjöllun

Siðnefnd fellst ekki á þá kröfu kærða, Fréttablaðsins og Garðars Arnar Úlfarssonar að kærunni verði vísað frá þar sem í henni sé ekki sett fram með skýrum hætti í hverjum einstökum kærulið hvaða greinar siðareglna kærandi telji að hafi verið brotnar. Siðanefnd telur að kæran sé engu að síður nægilega skýr til að vera tæk, enda rekur kærandi í 8 liðum hvernig hann telur að kærði hafi brotið af sér.

Kærandi telur fyrirsögn hinar kærðu fréttar ranga. Siðanefnd getur ekki fallist á það, enda er fyrirsögnin byggð á skoðun lögmanns Halds á fyrirhuguðum breytingum á skipulagi, sem fela í sér að ekki verði leyft að byggja á hinni umdeildu lóð. Fyrirsögnin lýsir því ekki eigin skoðun blaðamanns eða Fréttablaðsins á stöðu mála, heldur viðmælanda þess.

Kærandi segir eftirfarandi fullyrðingu Fréttablaðsins; „endaði með dómi Hæstaréttar sem tók undir með Henriki og sagði lóð hans vera byggingarlóð samkvæmt skipulagi frá árinu 1980," vera ranga. Siðanefnd getur ekki fallist á þessa túlkun kæranda, enda kemur skýrt fram í dómum Héraðsdóms og Hæstaréttar að sveitarfélagið hafi haft rétt til að hafna bygginu húss Halds á lóðinni vegna þess að húsið var stærra en gildandi skipulag heimilaði. Niðurstaða Hæstaréttar snérist ekki um það hvort lóðin væri byggingarlóð eða ekki og er því ekki hægt að skilja dóminn öðru vísi en svo að gildandi skipulag standi og lóðin sé áfram byggingarlóð með þeim skilmálum, sem skipulags- og byggingarnefnd hafði áður ákveðið.

Kærandi segir að eftirfarandi fullyrðing Fréttablaðsins; „Hæstiréttur segir þannig að byggja megi á lóðinni þótt þessar tilteknu teikningar hafi farið út fyrri skilmálana," sé röng. Vissulega er það ekki sagt með berum orðum í dómnum, en engan veginn er hægt að lesa annað út úr honum að mati siðanefndar.

Í kæruliði 4 segir að fullyrðing Fréttablaðsins um að kærandi hafi látið útbúa vaðlaug á hinni óbyggðu lóð, sem liggur að lóð kæranda, sé röng. Í fyrri umfjöllun Fréttablaðsins er fjallað um hina meintu vaðlaug 7. desember 2006. Þar er rætt við kærandann Kristján Sveinbjörnsson og segir orðrétt í frétt blaðsins: „Kristján segir það rétt að hann hafi útbúið laug á lóðinni fyrir neðan hús sitt fyrir tveimur eða þremur árum. „Þá stóð ég í þeirri meiningu að lóðin væri í eigu ættar minnar," útskýrir hann. Lóðin var á þessum tíma þinglýst eign nokkurra ættingja Kristjáns, sem hann deildi við um eignarhald á lóðinni." Af þessu er ekki hægt að taka undir að „fullyrðing" um vaðlaug sé röng.

Í kærulið 5 segir kærandi að fullyrðing Fréttablaðsins; „Kristján hefur beitt sér gegn því að Henrik fái að byggja á lóðinni en ávallt vísað á bug ásökunum um að afstaða hans markist af eiginhagsmunum," sé röng. Í fyrri umfjöllun blaðsins svo og í kærunni kemur skýrt fram að Kristján er á móti því að byggt verði á lóðinni. Ástæða þess sé einfaldlega sú að hann telji lóðina af ýmsum ástæðum óbyggingarhæfa. Siðanefnd getur ekki séð að þessi fullyrðing sé röng.

Þá segir kærandi að Fréttablaðið hafi ekki tiltekið að hann hafi sagt sig frá málinu í bæjarstjórn, en birti hins vegar mynd af honum og taki fram að hann sé forseti bæjarstjórnar. Siðanefnd getur ekki fallist á að það sé brot á siðareglum, enda hefur margoft áður komið fram í umfjöllun blaðsins um málið hver staða kæranda sé. Þá kemur það fram í frétt Fréttablaðsins frá 26. júní að Kristján hafi sagt sig frá málinu við umfjöllunum um það á vettvangi sveitarfélagsins.

Kærandi segir að ekki sé tekið fram í frétt Fréttablaðsins að Hæstiréttur hafi sýknað sveitarfélagið Álftanes af kröfum Halds ehf. um að banni við fyrirhugaðri byggingu við Miðskóga 8 verði rift. Siðanefnd getur heldur ekki fallist á þá túlkun kæranda á fréttinni, því þar segir svo: „Henrik hafði látið vinna fyrir sig teikningar að einbýlishúsi, en fékk þær ekki samþykktar. Hófst þá málarekstur sem fyrir mánuði endaði með dómi Hæstaréttar, sem tók undir með Henrik og sagði lóð hans vera byggingarlóð samkvæmt skipulagi frá 1980. Hins vegar hefðu uppdrættir að húsi hans ekki samræmst skilmálum deiliskipulagsins og því rétt hjá bæjaryfirvöldum að synja honum um að reisa hús samkvæmt þeim teikningum."

Loks segir kærandi að „skilningur fjölda lesenda Fréttablaðsins, sem hafi tjáð sig um þetta mál sé sá að sveitarfélagið hafi tapað málinu í Hæstarétti, ætli sér að hunsa þann dóm og síðan en ekki síst að það sé ég sem standi fyrir öllu saman." Siðanefnd getur ekki lagt á það mat hvernig tilteknir lesendur skilja umfjöllun fjölmiðla um einstök mál. Skilningur siðanefndar, eftir að hafa farið vandlega yfir umfjöllun Fréttablaðsins um málið og dóma Héraðsdóms og Hæstaréttar, þar með talið tillögur núverandi meirihluta um að afmá af skipulagi lóðina að Miðskógum 8 sem byggingarlóð, er hins vegar sá að umfjöllun blaðsins og sérstaklega hin einstaka kærða frétt, fari ekki í bága við siðareglur Blaðamannafélags Íslands.

Úrskurður:

Kærðu, Fréttablaðið, Garðar Örn Úlfarsson og Þorsteinn Pálsson brutu ekki siðareglur Blaðamannafélags Íslands.

Reykjavík, 6. október 2008

Hjörtur Gíslason; Björn Vignir Sigurpálsson; Jóhannes Tómasson; Salvör Nordal; Sigurveig Jónsdóttir