Mál nr. 1/2009-2010

Aðsent - 10.september 2009
Kærandi: NN
Kærðu: DV (Baldur Guðmundsson blaðamaður, ritstjórar DV).
Kæruefni: Viðtal við Ingvar Jóel Ingvarsson í helgarblaði DV 12.-14. júní 2009, undir fyrirsögninni „Fjögur viðhöld og eiginmaður".

Málsmeðferð

Kæra frá Auði B. Jónsdóttur hdl, fyrir hönd konunnar NN, barst Siðanefnd með bréfi dags. 16. júní 2009. Málið var tekið fyrir á fundi 19. ágúst og þá ákveðið að óska eftir greinrgerð frá kærðu. Greinargerð kærðu barst Siðanefnd með bréfi dags. 26. ágúst. Siðanefnd tók málið síðan fyrir 2. og 9. september.

Málavextir

Í hinu kærða viðtali lýsir Ingvar Jóel nær eingöngu samskiptum sínum við ónafngreinda gifta konu og hefur uppi alvarlegar ásakanir í hennar garð um svik, lygar, lögbrot og framhjáhald. Markmið viðtalsins af hálfu Ingvars virðist þó vera að hrinda af sér meintum orðrómi á vegum hinnar ónafngreindu konu, um að hann hefði hótað sonum hennar.

Í kærubréfinu er því haldið fram að í viðtalinu sé með „grófum hætti brotið gegn friðhelgi einkalífs" konunnar „og æra hennar gróflega meidd". Konan sé að vísu ekki nafngreind, en „öllum sem tengjast heimi kraftlyftinga og þeir sem kannst við viðkomandi aðila (sé) ljóst um hvern ræðir þannig að nafnleynd dugir ekki til að leyna persónu" konunnar. Ásökunum Ingvars Jóels er alfarið hafnað sem röngum og því haldið fram að DV hafi „þannig brotið gróflega gegn 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands um að vandaupplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu".

Einnig telur kærandi að brotin hafi verið sú skylda „að sýna fyllstu tillitsemi í vandasömum málum og forðast allt sem valdið getur saklausu fólki óþarfa sársauka eða vanvirðu". Nefnir kærandi eiginmann og syni konunnar í þessu sambandi. Öllum ásökunum Ingvars Jóels á hendur konunni er hafnað sem röngum. Kærandi telur að þótt Ingvar Jóel hafi mikla þörf fyrir að tjá sig sé DV ekki rétti vettvangurinn til þess. Gerð er krafa um að Siðanefnd úrskurði að um alvarlegt brot á siðareglum sé að ræða.

Í greinargerð kærðu, sem Baldur Guðmundsson blaðamaður og Jón Trausti Reynisson ritstjóri skrifa undir, er því hafnað að upplýsingaöflun hafi verið ábótavant. Blaðamaðurinn kveðst, eftir að hafa rætt við Ingvar Jóel, hafa „leitað staðfestingar á lykilatriðum í frásögn Ingvars Jóels" með því að ræða við annars vegar „mann sem þekkir vel til í heimi kraftlyftinga og þekkir vel til aðstæðna Ingvars Jóels" og hins vegar við „annan mann sem þekkir mjög vel til í heimi kraftlyftinga". Frásagnir þessara manna hafi rennt stoðum undir frásögn Ingvars Jóels.

Kærðu telja sig ekki geta tekið ábyrgð á orðspori konunnar „í heimi kraftlyftinga" þannig að það varði nafnleyndina. Ekki verði séð að „aðrir en þeir sem þegar vissu um orðspor (konunnar) hafi vitað hvaða konu Ingvar Jóel ræddi um" og að engar tilvísanir til persónu kæranda væri að finna í viðtalinu. Sá fyrirvari sé ítrekað settur í viðtalinu „að um frásögn af persónulegri reynslu Ingvars Jóels sé að ræða" og engin rök færð fyrir því í kærunni „að frásögn Ingvars Jóels sé ekki rétt, né að (kærandi) komi yfir höfuð fyrir í frásögn Ingvars" – þar standi orð gegn orði.

Blaðamaðurinn hafnar því alfarið að viðtalið sé með þeim hætti að í því felist brot á siðareglum og segir að þess hafi verið „sérstaklega gætt með nafnleynd að frásögn myndi ekki valda nafntoguðum einstaklingum eða aðstandendum þeirra óþarfa sársauka eða vanvirðu" og ekki yrði „með nokkru móti séð hvernig það á að vera á vitorði mjög margra hver hinn nafnlausi einstaklingur er".

Hjá ritstjóra kemur fram að ótilgreindur karlmaður, sem hafi kynnt sig sem lögmaður konunnar, hafi haft samband við DV og að honum hafi verið boðin birting á nafnlausri athugasemd frá téðri konu. Ekki hafi verið áhugi á því. Ritstjórinn segir enga aðra athugasemd hafa borist vegna viðtalsins fyrr en með viðkomandi kæru til siðanefndar, sem væri „svo illa rökstudd að ekki er hafið yfir vafa að kærandi hafi komið við sögu í þeirri grein sem hún kærir".

Umfjöllun

Siðanefnd fellst ekki á þá fullyrðingu kæranda að DV sé ekki rétti vettvangurinn fyrir persónuleg viðtöl. Siðanefnd tekur undir með kærðu að það sé ekki „á valdi eða forræði lögmanna að segja til um hvort DV sé rétti vettvangur fyrir viðtal á borð við það sem kæran lítur að".

Siðanefnd tók fyrir ósk kæranda um undanþágu á leiðréttingarákvæði 2. mgr. 6 gr. siðareglna og ákvað að taka kæruna til efnislegrar umfjöllunar, enda væri vandséð hvernig unnt yrði að leiðrétta hið kærða efni. Nefna má í þessu sambandi fordæmi í m.a. málum nr. 5/2003-2004, nr. 4/2005-2006 og nr. 9/2005-2006.

Siðanefnd telur að í umræddu viðtali hafi þess ekki verið gætt að afmá með fullnægjandi hætti persónugreinanlegar upplýsingar um þá konu sem Ingvar Jóel ber mjög alvarlegum sökum. Viðtalið ber með sér að konan tengist „heimi kraftlyftinga" með skýrum hætti og tengsl þessi eru undirstrikuð þar sem segir í viðtalinu að Ingvar Jóel hafi lagt alla sína „peninga í stöðina" sem konan rak. Þegar þetta er lagt saman við aðrar upplýsingar sem fram koma, um að viðkomandi „stöð" hafi farið „á hausinn", að konan sé gift og eigi tvo syni, þá verður að telja persónugreinanlegar upplýsingar séu með þeim hætti að jaðri við nafnbirtingu og það út fyrir „heim kraftlyftinga".

Siðanefnd telur það ófullnægjandi vinnubrögð að leita staðfestinga hjá tveimur einstaklingum „í heimi kraftlyftinga", en leita á engan hátt gagnsjónarmiða umræddrar konu. Hafa ber í huga að sterkar vísbendingar voru uppi um andlegt ójafnvægi viðmælandans. Hann kveðst sjálfur hafa leitað til sálfræðings og heilara. Siðanefnd telur að með þessar upplýsingar í höndunum og í ljósi þess að um mjög persónuleg og viðkvæm mál er að ræða hafi DV átt að fara sérstaklega varlega við birtingu viðtalsins og að lágmarki leita sjónarmiða gagnaðilans.

Í ljósi ofangreinds telur siðanefnd að DV hafi hvorki með fullnægjandi hætti vandað upplýsingaöflun sína né gætt þess að valda ekki saklausu fólki óþarfa sársauka og vanvirðu.

Úrskurður:

Kærðu, blaðamaður og ritstjórar DV, brutu 3. gr. siðareglna. Brotið er alvarlegt.

Reykjavík, 9. september 2009

Björn Vignir Sigurpálsson, Hjörtur Gíslason, Jóhannes Tómasson, Friðrik Þór Guðmundsson, Valgerður Anna Jóhannsdóttir