Arnaldur Jónsson (1919-1948)

Arnaldur fæddist 29. september á Ytravatni í Skagafirði. Foreldrar hans voru Jón Stefánsson, kaupmaður á Akureyri, og  Anna Jósefsdóttir. Hann ólst upp hjá móður sinni í Skagafirði til 13 ára aldurs, en fór þá í unglingadeild Hólaskóla og þaðan í eitt ár í skóla á Laugarvatni. Síðan stundaði hann nám við Samvinnuskólann, en varð fljótlega blaðamaður á Tímanum. Arnaldur hélt síðan til Bandaríkjanna og lagði stund á blaðamennsku  við háskóla í Minneapolis í eitt ár, en eftir heimkomuna réð hann sig sem blaðamann á Vísi. Hann færði sig síðan aftur yfir á Tímann þar sem hann starfaði þegar hann féll frá langt um aldur fram. Kristján (Benedikt Gauti) Jónsson, samstarfsmaður hans á Vísi, skrifar um hann minningarorð og segir: „Blaðamannastéttin er fámenn og má því sízt við því að missa góða og gegna félaga snemma úr sínum hópi, sem síðar meir hefðu getað orðið þess megnugir að halda hróðri hennar á lofti. Það má segja um Arnald eins og fleiri, að hann dó of ungur og er ég þess fullviss, að hefði honum enzt aldur, hefði mátt búast við mörgu góðu af honum.“ Til orðahnippinga kom á fundi í Blaðamannafélaginu nokkru eftir andlát Arnaldar þar sem Helgi Sæmundsson gerði harða hríð að Halldóri Kristjánssyni frá Kirkjubóli fyrir óviðurkvæmleg minningarorð hins síðarnefnda, þar sem hann kenndi vínhneigð Arnaldar um hvernig fór fyrir honum. Halldór var annálaður bindindisfrömuður. Minningarorðin má lesa í meðfylgjandi tengli. Arnaldur átti sæti í stjórn Blaðamannafélags Íslands árið 1942, þegar Páll Skúlason er fyrst kjörinn formaður og festa kemst á í starfi félagsins.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=57679&pageId=1005602&lang=is&q=Arnaldur%20J%F3nsson