Jóhanna Kristjónsdóttir (1940-2017)

Jóhanna fæddist í Reykjavík 14. febrúar. Móðir hennar var Elísabet Engilráð Ísleifsdóttir  en faðir Jóhönnu var Kristjón Kristjónsson. 

Jóhanna hóf blaðamennskuferil sinn átján ára á Vikunni árið 1958 og starfaði þar til 1959 en var síðan lausráðinn blaðamaður á Tímanum frá 1962 til 1966. Lengst af starfaði hún á Morgunblaðinu, frá árinu 1967 til 1995.

Jóhanna sagði í viðtali í bókinni Í hörðum slag, öðru bindi viðtalsbóka við íslenska blaðamenn,  hvernig úr varð að hún hóf störf á Morgunblaðinu. Hún hafði unnið í lausamennsku fyrir Tímann en þar vildu menn ekki ráða hana því ritstjórinn sagði að konur væru óáreiðanlegur vinnukraftur. Því hefði orðið úr að hún talaði við ritstjóra Morgunblaðsins sem réðu hana til starfa. Þar var hún í tæpa þrjá áratugi, framan af í erlendum fréttum en síðar sem umsjónarmaður sérblaðsins Daglegt líf/ferðalög. Hún ferðaðist víða í starfi og skrifaði greinar og tók viðtöl fyrir blaðið.

Þáttaskil urðu í lífi Jóhönnu árið 1995. Þá hætti hún störfum á Morgunblaðinu og fór í arabískunám í Sýrlandi, Egyptalandi og Jemen. Hún var sjálfstætt starfandi blaðamaður, leiðsögumaður í ferðum með Íslendinga um Miðausturlönd og skrifaði fjölda bóka. Þeirra á meðal má nefna Insjalla og Arabíukonur. Hún skrifaði endurminningabókina Svarthvítir dagar sem kom út 2014 og naut vinsælda. Áður hafði hún skrifað bókina Perlur og steinar um hjónaband sitt og Jökuls Jakobssonar. Meðal þekktustu bóka Jóhönnu er einnig frumraun hennar, skáldsagan Ást á rauðu ljósi sem kom út 1960.

Jóhanna tók mikinn þátt í félagsmálum. Hún var fyrsti formaður Félags einstæðra foreldra, formaður Vináttufélags Íslands og Miðausturlanda og stofnaði Fatímusjóðinn sem beitti sér fyrir menntun stúlkna í Jemen og fyrir margvíslegri neyðaraðstoð í Afríku og Miðausturlöndum. Jóhanna er móðir Illuga, Hrafns og Elísabetar Kristínar sem öll hafa komið mikið við sögu íslenskra blaðamennsku.


htps://www.bjorn.is/greinar/johanna-kristjonsdottir-minningarord