Jón Magnússon(1910-1968)

Jón fæddist á Sveinsstöðum í Þingi, Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Magnús Jónsson, bóndi þar, og Jónsína Jónsdóttir, eiginkona hans. Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1931, en síðan lagði hann stund á nám í norrænum málum, ensku og bókmenntasögu við háskólann í Stokkhólmi og þar lauk hann fil.kand.-prófi árið 1937. Hann var að loknu háskólanámi starfsmaður menntamálaráðs í Reykjavík frá árinu 1938-1941, er hann var ráðinn fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Því starfi gegndi hann til dauðadags. Jón átti nokkrum sinnum sæti í stjórn Blaðamannafélags Íslands og var formaður þess um skeið. Í drögum þeim að blaðamannatali frá sjötta áratug síðustu aldar er eyðublað með mynd (meðfylgjandi) af Jóni, nafni hans og starfsheiti, en aðrar upplýsingar eru ókomnar. Í sögu útvarpsins, Útvarp Reykjavík, eftir Gunnar Stefánsson, kemur fram að Jón hafi verið ráðinn fréttastjóri gegn vilja útvarpsstjórans, Jóns Þorbergssonar, en þó reynst mikið happaráð og Jóni tekist að koma rekstri fréttastofunnar á réttan kjöl eftir mikil átök í aðdragandanum. „Hann varð því um langt skeið einn helsti burðarás í starfsemi Ríkisútvarpsins. Ekki er annað vitað en samstarf hans og Jónasar Þorbergssonar yrði hið besta þótt ekki væri Jón ráðinn til starfa að tillögu útvarpsstjóra.“

Jón Múli Árnason þulur minnist Jóns við útför hans með þessum orðum: „Á fréttastofunni hjá Jóni Magnússyni var ég með annan fótinn í rúma tvo áratugi og engum vinnustað hef ég kynnzt þar sem ríkti betri andi - og sem betur fer eru menn og konur á slíkum stað ekki alltaf að hamra á vélar eða æpa í símann - inn af fréttastofunni er lítil kaffisalon, þar sem hitan er tekin á réttum tíma og stundum skyndihitur þess í milli, - og þar er iðulega pípað hratt um heima og geima - þar hefur mörgum þótt gaman að eiga orðastað við Jón Magnússon og hans fólk og ekki var þar fréttastjórinn dragbítur á konversasjónina.“

Sonur Jóns er Friðrik Páll Jónsson fyrrum fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu.

http://timarit.is/files/14344821.pdf#navpanes=1&view=FitH

http://servefir.ruv.is/her/herruv1.htm