Jónas Árnason(1923-1998)

Jónas fæddist á Vopnafirði 28. maí. Í drögum að blaðamannatali frá sjötta áratug síðustu aldar upplýsir hann að hann sé blaðamaður á Þjóðviljanum og hafi starfað í blaðamennsku frá 1945. Hann var á Fálkanum 1945-1946, Þjóðviljanum 1946, og Landnemanum 1947 og síðan, segir þar. Eyðublaðið er ódagsett og því ekki ljóst frá hvaða tíma þessar upplýsingar eru nema einsýnt að þær eru frá því eftir 1950. Í Alþingismannatali kemur hins vegar fram að Jónas starfaði við Þjóðviljann 1946-52, en var jafnframt ritstjóri Landnemans á sama tíma. Í upplýsingum sínum um helstu æviatriði segir Jónas: „Foreldrar Ragnheiður Jónasdóttir og Árni Jónsson frá Múla. Stúdent í Reykjavík 1942. Nám í Bandaríkjunum 1943-1944. Blaðamennska síðan 1945. Kvæntur 1948 Guðrúnu Jónsdóttur. Landskjörinn þingmaður 1949.“ Þessu til viðbótar er að nefna að Jónas sneri sér síðan að kennslu um árabil, en var síðan alþingismaður frá 1967-1979. Jónas var um leið vinsæll rithöfundur og leikrita- og söngleikjahöfundur, einatt í félagi við bróður sinn, Jón Múla Árnason, útvarpsmann.