- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Jónas fæddist 3. maí. Í drögum að blaðamannatali frá sjötta áratugnum segist hann eiga að baki þrjú ár í gagnfræðaskóla, en ekki lokið prófi, sjö ár í tónlistarnámi, þar af fjögur ár í Tónlistarskólanum í Reykjavík, og fimm ára leiklistarnám. Umsóknin um upptöku í Blaðamannafélag Íslands er dagsett 15. desember 1951 og hann er þá starfandi á Fréttastofu útvarpsins. Hann hafi hafið störf 1. maí 1949 og haft fréttamennsku að aðalstarfi síðan. Meðmælendur á umsókn hans eru Jón Magnússon og Stefán Jónsson, báðir á Fréttastofu útvarps. Í upplýsingum sínum um helstu æviatriði er Jónas frekar spaugsamur eins og hans var von og vísa: „Fæddur í Vesturbænum eins og Hendrik Ottósson, fór í barnaskóla eins og venja er til, en hætti fljótlega og hóf vinnu á Alþingi sem þingsveinn, en hætti áður en ég var kjörinn á þing. Tók fullnaðarpróf eitt hörkugott, utanskóla, en fór að því loknu í gagnfræðaskóla, stóð mig vel í 1. bekk en gerðist latur er á leið. Ritstjóri skólablaðsins og fékk þá áhuga á fréttamennsku, en lesendur misstu fljótt áhugann á mér sem blaðamanni, enda ekki láandi. Hóf nám í tónlist, fyrst í einkatímum, síðan í Tónlistarskóla. Hóf einnig nám í leiklist og hefi stundað nám í þessum tveimur listgreinum, en fljótt á litið virðist ekkert ganga né reka. Það er þó eigi svo, hefi tekið þátt í leiksýningum, fyrst í Iðnó, síðan í Þjóðleikhúsinu, ennfremur leikið í mörgum útvarpsleikritum. Ferðast nokkuð um Norðurlönd og Bretland, hefi kynnt mér vinnubrögð í breskum kvikmyndaverum, einnig séð flutning leikrits á BBC. Svona standa málin nú, hvað sem síðar verður. Ungur enn að árum og eldist ekki fyrr en annað fólk og get því eigi skrifað meira, þótt allur sé af vilja gerður.“
Við þetta er því að bæta að foreldrar hans voru Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri, f. 22. janúar 1885 á Helgastöðum í Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu, og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, húsmóðir, f. 30. janúar 1898 í Háagerði, Vindhælishreppi, Húnavatnssýslu. Jónas var 17 ára þegar hann hóf störf á Fréttastofu ríkisútvarpsins og starfaði hjá útvarpinu nær óslitið til dauðadags. Á ferlinum starfaði hann á flestum deildum útvarpsins. Hann veitti forstöðu Ríkisútvarpinu á Akureyri og var upphafsmaður fyrsta svæðisútvarpsins. Hann skrifaði og leikstýrði mörgum útvarpsleikritum og setti upp leiksýningar víða um land. Hann skrifaði greinar í mörg blöð og tímarit og eftir hann liggja nokkrar bækur. Hann gerði mikinn fjölda útvarpsþátta af ýmsum toga, en var þekktastur fyrir Kvöldgesti, viðtalsþátt sem var á föstudagskvöldum óslitið í 30 ár. Þá liggur eftir hann fjöldi dægurlaga sem hann samdi. Þekktust þeirra eru Vor í Vaglaskógi og Hagavagninn.
http://www.ruv.is/frett/jonas-jonasson
http://www.dv.is/frettir/2011/9/30/jonas-jonasson-gaman-ad-eiga-heima-i-sumarlandi/