Matthías Johannessen(1930-2024)

 Matthías fæddist í Reykjavík. Samkvæmt drögum að blaðamannatali BÍ sótti hann um upptöku í félagið 12. apríl 1953 og kemur fram í umsókninni að hann hafi þá starfað á Morgunblaðinu frá því 7. ágúst 1952. Meðmælendur á umsókn hans eru samstarfsmaður hans Þorbjörn Guðmundsson og Hendrik Ottósson útvarpinu. Í umsókn Matthíasar kemur fram: Hann fæddist 3. janúar 1930, sonur Haraldar Johannessen, bankafulltrúa, og eiginkonu hans, Önnu Johannessen. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík í júní 1950. Hann stundaði síðan nám við Háskóla Íslands og hefur lokið fyrrihlutaprófi í íslenskum fræðum. Hann gerðist blaðamaður hjá Morgunblaðinu í ágúst 1952 og hefur unnið þar síðan, einkum við erlendar fréttir, segir í umsókninni.   Árið 1955 lauk Matthías síðan kandítatsprófi í íslenskum fræðum með bókmenntir sem aðalgrein. Hann hélt þá til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði framhaldsnám veturinn 1956-1957. Meðfram háskólanámi starfaði Matthías áfram sem blaðamaður við Morgunblaðið og var hann gerður að ritstjóra þess í ágúst 1959, aðeins 29 ára að aldri. Ritstjórastarfinu gegndi Matthías allt til ársins 2001 að hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Á ritstjóratíma sínum var Matthías m.a. formaður þjóðhátíðarnefndar 1974 í tilefni af 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Matthías gat sér snemma orð sem blaðamaður fyrir samtöl sín, en eins og segir á vefnum bókmenntir.is þá hefur hann „á löngum ritferli sent frá sér ljóðabækur, leikrit, ritgerðir, viðtalsbækur og ævisögur, þýðingar, annast útgáfur og samið formála að ýmsum ritum, auk fjölbreytts efnis í blöðum og tímaritum“. Matthías er þekktur fyrir samtöl sín við kunna sem og síður þekkta einstaklinga, m.a. Halldór Laxness, Þórberg Þórðarson, Tómas Guðmundsson og Pál Ísólfsson. Árið 1958 sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók, Borgin hló, sem vakti athygli fyrir frjálst stílform. Ljóð hans hafa verið þýdd á fjölda tungumála og hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. Þrjár bóka hans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs; Tveggja bakka veður (1983), Dagur af degi (1990) og Vötn þín og vængur (1998). Hann hefur ennfremur hlotið heiðurslaun Alþingis frá 1984 og fékk Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 1999. Þá var hann einn þeirra sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka árið 2005 fyrir bókina Kjarval.“ Matthías hlaut viðurkenningu Móðurmálssjóðs Björns Jónssonar 1960. Hann hefur birt dagbókarbrot frá blaðamanns- og ritstjóratíma sínum á vefsíðu sinni á netinu og hægt er að tengjast hér að neðan.