Ólafur K. Magnússon (1926-1997)

Ólafur fæddist í Reykjavík 12. mars. Foreldrar Ólafs voru Magnús Jóhannsson, skipstjóri, og Kristín Hafliðadóttir.

Ólafur lauk námi frá Ingimarsskólanum og hélt síðan til New York árið 1944 til náms í ljósmyndun í eitt ár. Að því loknu fór hann til Hollywood og lærði kvikmyndun hjá Paramount Pictures. Hann sneri til Íslands árið 1947 og hóf þá störf sem ljósmyndari hjá Morgunblaðinu. Þar starfaði hann í hartnær hálfa öld eða þar til 1.1. 1997.

Ólafur var frumkvöðull í blaðaljósmyndun á Íslandi og snjallasti ljósmyndari landsins til margra ára. Ólafur varð aldrei félagi í Blaðamannafélagi Íslandi og er nokkur saga á bak við það. Ólafur sótti um inngöngu í félagið en var hafnað af þeirri ástæðu að á þeim tíma töldust ljósmyndarar ekki til blaðamanna. Félagar hans á Morgunblaðinu á þessum tíma, blaðamennirnir Þorsteinn Thorarensen og Gunnar G. Schram, undu þessari niðurstöðu illa, tóku upp mál hans á fundi innan Blaðamannafélagsins og beittu m.a. þeim rökum hversu Ólafur væri fundvís á fréttnæma hluti í myndum sínum. Fór svo að innganga Ólafs í félagið var samþykkt en stolti Ólafs hafði engu að síður verið misboðið og hann gerðist aldrei félagi í B.Í.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=130071&pageId=1892591&lang=is&q=%D3lafur%20K%20Magn%FAsson