Páll Steingrímsson(1879-1947)

Páll fæddist á Flögu í Vatnsdal. Hann var á árunum frá 1924-1938 ritstjóri og meðeigandi dagblaðsins Vísis.  Eiginkona hans var Guðrún Indriðadóttir skálds Einarssonar, þjóðkunn leikkona, og sonur þeirra var Hersteinn Pálsson, ritstjóri Vísis. Páll lauk gagnfræðaprófi frá Möðruvallaskóla 1896. Hann hélt til Reykjavíkur aldamótaárið 1900 og fór til starfa hjá póststofunni. Hann var orðinn póstfulltrúi þegar hann var ráðinn ritstjóri Vísis árið 1924. Páll var ritstjóri blaðsins í 14 ár þegar hann lét af starfi vegna heilsubrests. Kristján Guðlaugsson, sem tók við ritstjórn blaðsins af Páli, sagði við það tækifæri: „Enginn íslenskur blaðamaður mun hafa skrifað fegurra né hreinna mál, og munu það allir mæla, er til þekkja. Stjórnmálaflutningur og fréttaburður blaðsins undir stjórn Páls Steingrímssonar hefir einnig haft á sér annan blæ en tíðkast hefir hjá ýmsum þeim blöðum, sem fremst hafa staðið í sókn og vörn. Hefir þar gætt frekari sanngirni en sumir aðrir blaðamenn hafa talið sér hæfa, en einmitt þeirra hluta vegna hefir Vísir unnið sér traust og notið frekara álits en önnur blöð, hjá stórum hóp manna.“