Thor Vilhjálmsson(1925-2011)

 Thor fæddist 12. ágúst í Edinborg í Skotlandi. Í drögum að blaðamannatalinu frá því á sjötta áratug síðustu aldar kemur fram að hann er stúdent og á að baki háskólanám á Íslandi og í París. Umsókn Thors um aðild að félaginu er dagsett 3. apríl 1955 og hann starfar þá á Þjóðviljanum. Thor er samþykktur inn í Blaðamannafélag Íslands sex dögum síðar. Í upplýsingum um helstu æviatriði stendur einungis skrifað með hans hendi: „Hefur skrifað tvær bækur.“ Það átti ekki fyrir Thor Vilhjálmssyni að ligga að leggja fyrir sig eiginlega blaðamennsku þó hann væri sískrifandi í blöð. Hann varð hins vegar einn kunnasti rithöfundur og menningarfrömuður landsins á sinni tíð. Foreldrar hans voru Kristín Thors, húsmóðir, og Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands. Thor lauk stúdentsprófi frá MR 1944 og stundaði nám við norrænudeild HÍ 1944-46. Hann stundaði nám við Háskólann í Notthingham í Englandi 1946-1947 og Sorbonne-háskóla í París 1947-1952. Thor var formaður Rithöfundasambands Íslands 1959-1960 og 1966-1968.  Hann var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1975-1981. Sat í framkvæmdastjórn Listahátíðar 1976-1980. Hann sat í stjórn Alliance Franqaise árum saman. Thor var einn af stofnendum menningartímaritsins Birtings 1955 og sat í ritstjórn þess til 1968. Hann var formaður Júdófélags Reykjavíkur í nokkur ár. Hann var forseti íslenska PEN-klúbbsins. Thor var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 2010. Fyrsta bók Thors, Maðurinn er alltaf einn, kom út árið 1950. Síðan skrifaði hann fjölda bóka, skáldsögur, ljóð, leikrit og greinasöfn. Auk þess hafa komið út eftir hann þýðingar úr ýmsum málum, m.a. frönsku, ensku, spænsku, portúgölsku og ítölsku. Thor fékkst einnig við myndlist, hélt málverkasýningar og skrifað um íslenska myndlistarmenn, þar á meðal bækur um Jóhannes Kjarval og Svavar Guðnason. Þá vann hann ötullega að framgangi kvikmyndagerðar á Íslandi. Thor var þrívegis fulltrúi Íslands í bókmenntaverðlaunasamkeppni Norðurlandaráðs og hlaut verðlaunin árið 1987 fyrir skáldsöguna Grámosinn glóir. Hann hefur tvisvar hlotið bókmenntaverðlaun DV. Árið 1992 hlaut Thor bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar fyrir ritstörf. Eiginkona Thors Vilhjálmssonar var Margrét Indriðadóttir, fyrrverandi fréttastjóri útvarpsins.