BÍ fordæmir árás á vef Fréttablaðsins

Mynd/aðsend
Ljósmyndin sem Fréttablaðið birti með umfjöllun um innrás Rússa í Úkraínu og rússneska …
Mynd/aðsend
Ljósmyndin sem Fréttablaðið birti með umfjöllun um innrás Rússa í Úkraínu og rússneska sendiráðið hefur farið fram á að beðist verði afsökunar á.

Stjórn BÍ fordæmir allar tilraunir til þess að hafa áhrif á fréttaflutning fjölmiðla og lítur á tölvuárás sem gerð var á vef Fréttablaðsins í dag sem alvarlega tilraun til þess. Í frétt á vef blaðsins í dag segir að rússneska sendiráðið hafi farið fram á það við ritstjóra að blaðið biðjist afsökunar á því að birta mynd sem sýnir mann traðka á rússneska fánanum. Myndin er birt í umfjöllunum um stríðið í Úkraínu. Ritstjórn Fréttablaðsins barst einnig hótun í tölvupósti um að vefur miðilsins yrði hakkaður ef ekki yrði beðist afsökunar á myndbirtingunni. Samkvæmt upplýsingum frá Sigmundi Erni Rúnarssyni ritstjóra hófst netárásin í morgun en öryggisráðstafanir hægja á vefnum hjá notendum. Stjórn Blaðamannafélagsins hefur fjallað um árásina í dag og hefur samþykkt svohljóðandi ályktun:

Tölvuárás á vef Fréttablaðsins er alvarleg tilraun til að hafa áhrif á sjálfstæða ritstjórn íslensks fjölmiðils. Samkvæmt bréfi sem ritstjórn blaðsins barst í nótt er árás hótað vegna myndbirtingar Fréttablaðsins í umfjöllun um innrás Rússa í Úkraínu. Áður hefur rússneska sendiráðið á Íslandi krafist afsökunarbeiðni frá ritstjóra Fréttablaðsins vegna myndbirtingarinnar.

Mikilvægi sjálfstæðra og frjálsra fjölmiðla er sérlega mikilvægt í stríðsástandi og fordæmir Blaðamannafélag Íslands allar tilraunir til að hafa áhrif á fréttaflutning fjölmiðla frá stríðinu í Úkraínu.
 Fréttablaðið hefur kært málið til lögreglu sem hefur það nú til rannsóknar.