BÍ tilkynnir um úrsögn úr IFJ

Blaðamannafélag Íslands tilkynnti í dag um úrsögn sína úr Alþjóðasambandi blaðamanna, IFJ. Systurfélög BÍ í Noregi, Danmörku og Finnlandi lýstu einnig yfir úrsögn sinni á sama tíma. Sænska félagið hefur tilkynnt að það sé einnig að ræða úrsögn.

„Ástæðan fyrir úrsögninni er sú að IFJ hafa reynst ófær um að gera úrbætur í starfsemi sinni í samræmi við gagnrýni frá Norrænu blaðamannafélögunum og fleiri félögum, sem hefur verið viðvarandi í meira en tíu ár. Við erum ósátt við skipulag þinga og kosninga og skort á gagnsæi í ákvarðanatöku,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ. 

Norrænu blaðamannafélögin hafa ítrekað kallað eftir umbótum á starfsháttum IFJ. 

Forysta IFJ hefur til að mynda látið það viðgangast að rússneska aðildarfélagið fylgdi eftir herskárri stefnu Rússa í Úkraínu með því að stofna héraðsfélög rússnesku blaðamannasamtakanna á herteknum svæðum sem hafa þar með fengið sjálfkrafa aðild að IFJ. Það sama hefur gerst í Abkasíu, þó að þetta georgíska hérað sé ekki viðurkennt sem sjálfstætt af neinum öðrum en Rússlandi, Níkaragva og Venesúela. Ennfremur valdi IFJ að halda síðasta allsherjarþing sitt í Óman, þar sem svo sannarlega ríkir ekki fjölmiðlafrelsi, en þing sambandsins eru haldin á þriggja ára fresti.

„Þetta er ekki auðveld ákvörðun, en við getum ekki verið meðlimur í alþjóðlegum blaðamannasamtökum þar sem vinnubrögð, menning og ákvarðanataka stenst alls ekki kröfur okkar um gagnsæi og lýðræðislegu ferli er ábótavant,“ segir Sigríður Dögg. 

Þarf samþykki aðalfundar

Stjórn BÍ gaf grænt ljós um miðjan desember á að félagið tilkynnti um úrsögn sína úr IFJ, ef forysta alþjóðasamtakanna brygðist ekki við kröfum norrænu félaganna. Úrsögnin er þó gerð með þeim fyrirvara að hún verði samþykkt á aðalfundi félagsins, enda kveða lög BÍ að óbreyttu á um að BÍ skuli vera aðili að IFJ. 

„Við, formenn norrænu blaðamannafélaganna fimm, funduðum í síðustu viku með æðstu stjórnendum IFJ – forseta, framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra, en því miður reyndist enginn vilji til að koma til móts við umbótakröfur okkar og lítill skilningur virtist á gagnrýni okkar. Við höfum knúið á um breytingar hjá IFJ í meira en áratug, svo sem um meira gagnsæi í kringum kosningar og aðrar stórar ákvarðanir innan IFJ. Það hefur ekki borið árangur og við höfum ekki trú á því að það gerist nema með grundvallarbreytingum á stjórnskipan, menningu og viðhorfum sem við sjáum ekki að þau sem nú halda um stjórnartaumana hafi áhuga eða vilja til að ráðast í,“ segir Sigríður Dögg.

Sex mánaða uppsagnarfrestur er á úrsögninni. Verði úrsögnin samþykkt á aðalfundi BÍ í mars (og lögum félagsins breytt til samræmis) mun hún taka gildi í lok júlí í sumar. 

Félög blaðamanna í Danmörku, Noregi og Finnlandi segja sig samtímis úr IFJ. Sænska blaðamannafélagið tekur undir gagnrýni norrænu systurfélaganna en tekur sér af sérstökum ástæðum lengri frest til að taka endanlega ákvörðun um úrsögn. 

Nýrra lausna leitað við útgáfu alþjóðlegra blaðamannaskírteina

Hingað til hefur IFJ séð um útgáfu alþjóðlegra blaðamannaskírteina. Enginn íslenskur blaðamaður hefur þó sótt um slíkt skírteini á síðustu árum. Hin norrænu félögin sem nú ætla að ganga úr IFJ hafa skipað starfshóp til að finna lausn á þessu, svo að félagsmenn þeirra geti eftir sem áður fengið útgefin alþjóðleg blaðamannaskírteini. 

Norrænu félögin verða eftir sem áður félagar í evrópsku blaðamannasamtökunum, EFJ, sem hafa starfað með mun lýðræðislegri og faglegri hætti.