Endurskoðandi neitaði að árita ársreikning

Formaður BÍ, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, tilkynnti á aðalfundi að endurskoðandi félagsins hefði neit…
Formaður BÍ, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, tilkynnti á aðalfundi að endurskoðandi félagsins hefði neitað að árita ársreikning. Ljósmynd/Golli

Ekki var hægt að leggja fram endurskoðaðan ársreikning á aðalfundi félagsins á þriðjudag, líkt og formaður skýrði frá á fundinum. Ástæðan var sú að átta dögum fyrir aðalfund tilkynnti endurskoðandi að hann muni ekki skrifa undir ársreikning með endurskoðunaráritun. Leita þarf til annars endurskoðanda og boða til framhaldsaðalfundar eftir að endurskoðun ársreiknings lýkur, sem vonandi verður innan tveggja mánaða. Boðað verður til framhaldsaðalfundar með lögmætum fyrirvara, sem er einn mánuður skv. lögum félagsins. 

Öll bókhaldsgögn vegna síðasta árs fóru til endurskoðanda í febrúar svo hægt væri að vinna að endurskoðun ársreiknings. Endurskoðandi hafði svo gefið grænt ljós á að aðalfundur gæti farið fram þann 16. apríl, endurskoðun ársreiknings yrði lokið fyrir þann tíma. Eftir að drög að endurskoðuðum ársreikningi barst skrifstofu sendi formaður spurningar á endurskoðanda um verklag við endurskoðun, sérstaklega innri endurskoðun, því engar spurningar tengdar úrtökum úr færslum höfðu borist skrifstofu, auk þess sem endurskoðandi hafði ekki sent neinar athugasemdir við ársreikninginn.

Endurskoðandi félagsins svaraði ekki spurningunum en óskaði eftir fundi með formanni, sem hitti hann á fundi ásamt Lovísu Arnarsdóttur, ritara stjórnar, þann 8. apríl. Á þeim fundi tilkynnti endurskoðandi að hann muni ekki undirrita ársreikning félagsins með endurskoðunaráritun. Skýringin sem hann gaf var sú að orðsporsáhætta endurskoðunarfyrirtækisins væri aukin í tengslum við umræðu um fjármál félagsins og óháða skoðun á fjárreiðum, sem hann hafi lesið um í fjölmiðlum. Óskaði formaður eftir því að fá skýringarnar skriflega, en við því hefur endurskoðandi ekki orðið, og tilkynnti í framhaldinu að hann væri kominn í veikindaleyfi. 

Því var endurskoðaður ársreikningur ekki lagður fram hér á aðalfundi, líkt og lög félagsins gera ráð fyrir. Samkvæmt ráðgjöf frá lögmanni félagsins og KPMG verður því boðað til framhaldsaðalfundar þar sem endurskoðaður ársreikningur verða lagðar fram. Tillaga stjórnar um að leita tilboða í endurskoðun ársreiknings var samþykkt á aðalfundinum.

Formaður fór þó yfir helstu stærðir ársreikningsins á aðalfundinum, með fyrirvara um að hann hafi ekki verið endurskoðaður. Samkvæmt drögunum er rekstur félagsins í mjög svipuðu horfi og árið á undan og helstu stærðir lítið breyttar.