- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Alþjóðasamband blaðamanna, IFJ, birti í dag fullbúna ársskýrslu sína um blaðamenn og fjölmiðlastarfsmenn sem týndu lífi á árinu 2022. Þetta er 32. slíka ársskýrslan, en í henni kemur fram að 68 fjölmiðlamenn voru drepnir á árinu, sumir í beinum morðtilræðum og sumir í sprengingum eða lentu í skotlínu vopnaðra átaka, bókstaflega.
Mest varð blaðamannfall ársins á vettvangi í Úkraínu, þar sem tólf blaðamenn og annað fjölmiðlafólk týndu lífi. Næstflest dauðsföll voru í Mexíkó (11), þá Haítí (7), Pakistan (5), og Kólumbíu og Filippseyjum, en í hvoru þessara síðstnefndu landa féllu fjórir blaðamenn á liðnu ári.
Í skýrslunni segir að skortur á aðgerðum stjórnvalda og pólitískum vilja til að taka á refsileysi fyrir glæpi sem framdir eru á blaðamönnum eigi stóran þátt í því hve illa er ástatt um öryggi blaðamanna víða um heim um þessar mundir. Samtökin hvetja því til þess að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna verði samþykktur nýr alþjóðasáttmáli helgaður vernd blaðamanna og fjölmiðlafagfólks.
„Þessi skýrsla snýst ekki bara um að lýsa því ofbeldi sem beint er gegn blaðamönnum og öðru fjölmiðlastarfsfólki, sem birtist í hinum mikla fjölda árása gegn þeim, heldur líka beina athyglinni að rótum vandans,“ er haft eftir Anthony Bellanger, framkvæmdastjóra IFJ, í fréttatilkynningu. „Skýrslan er vitnisburður um þær margvíslegu hættur, hótanir og árásir sem blaðamenn sæta, en einnig um refsileysið sem svo víða viðgenst þegar um glæpi gegn blaðamönnum er að ræða. Þetta refsileysi er lýsandi fyrir viðvarandi öryggiskreppu blaðamennsku víða um heim.“
Í skýrslunni er líka nafnalisti þeirra 375 blaðamanna sem nú er haldið bak við lás og slá í löndum heims. Það ríki sem fangelsað hefur flesta blaðamenn er Kína, eða 84 (að Hong Kong meðtöldu), næstflestum blaðamönnum heldur herforingjastjórnin í Myanmar (Búrma), 64, þá Tyrkland, 51, Íran, 34, og Hvíta-Rússland/Belarús, 33.
Alla skýrsluna má lesa hér.