BÍ telur ákvörðun dómara takmörkun á tjáningarfrelsinu

Margrét Björk Jónsdóttir, fréttamaður Vísis, Erla Björg Gunnarsdóttir, ritstjóri fréttastofu Stöðvar…
Margrét Björk Jónsdóttir, fréttamaður Vísis, Erla Björg Gunnarsdóttir, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis og Reimar Pétursson, lögmaður fréttastofu, í dómsal í morgun. Ljósmynd: Freyr Gígja Gunnarsson.

BÍ sendi í kvöld bréf á dómsmálaráðherra, Alþingi og Dómstólasýsluna, þar sem áhyggjum er lýst af ákvörðun dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur að banna fréttaflutning úr dómsal af tilteknu máli í sjö vikur á meðan skýrslutökur fóru fram. 

Yfirlýsing frá Blaðamannafélagi Íslands um ákvörðun dómara að banna fréttaflutning af dómsmáli:

Blaðamannafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af ákvörðun Sigríðar Elsu Kjartansdóttur héraðsdómara að kalla fulltrúa fréttastofu Vísis, Bylgjunnar og Stöðvar 2 fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir að hafa farið gegn fréttabanni sem dómarinn setti í byrjun janúar vegna tiltekins sakamáls sem var til meðferðar hjá dómnum. Blaðamannafélagið mótmælir túlkun dómarans á lögum um meðferð sakamála og telur hana stangast á við ákvæði um tjáningarfrelsi í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála, auk þess sem lög kveði skýrt á um að þinghald skuli háð í heyranda hljóði.

Dómarinn fyrirskipaði við upphaf skýrslutöku af sakborningum málsins í byrjun janúar, að fjölmiðlum væri óheimilt að skýra frá því sem þar kom fram fyrr en öllum skýrslutökum í málinu væri lokið. Vísaði Sigríður Elsa í 1 mgr. 11. greinar laga um meðferð sakamála þar sem segir að þó svo að óheimilt sé að greina frá því sem sakborningur eða vitni greina frá við skýrslutöku á meðan henni stendur. Þessu ákvæði var bætt inn í lögin árið 2019 en í greinargerð með frumvarpi því er skýrt tekið fram að tilgangur ákvæðisins sé að gera það óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtímaendursögn af skýrslutökum (endanlegt orðalag lagatextans:óheimilt sé að skýra frá skýrslutöku á meðan á henni stendur). Blaðamannafélagið lagðist alfarið gegn lagabreytingunum árið 2019 og taldi það setja enn frekari hömlur á fréttaflutningi af því sem fram fer í réttarsölum. Benti félagið á það í umsögn sinni um frumvarpið að það væri til þess gert að hamla því að þinghald fari fram fyrir opnum tjöldum. Það sé grundvallaratriði í lýðræðisskipulagi að dómsvaldið sé sjálfstætt og stærsti þátturinn í aðhaldi að þessari grein ríkisvaldsins sé að þinghald sé eins opið og nokkur kostur er og gagnsæi um málsmeðferð tryggt með þeim hætti. Það er lykilatriði fyrir sakborninga og aðra þá sem þurfa að leita til dómstóla og ekkert er jafn vel til þess fallið að tryggja réttaröryggi í samfélaginu, sagði einnig í umsögninni.

Blaðamannafélagið telur augljóst að dómari sé með ákvörðun sinni að túlka þetta ákvæði mun þrengra en löggjafinn hafði áform um og fagnar því að fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar hafi ákveðið að láta reyna á túlkunina með því að brjóta gegn fyrirmælum dómarans. Félagið telur mikilvægt í ljósi almannahagsmuna að skorið verði úr um hvort túlkun dómarans sé réttmæt enda hefur þessi rangtúlkun haft þær alvarlegu afleiðingar að fleiri dómarar eru farnir að afbaka ákvæðið sem sama hætti og Sigríður Elsa.

Vísir braut gegn fyrirskipan dómara þann 3. mars, um sjö vikum eftir að fyrstu skýrslutökur fóru fram, en þá áttu hollenskir tollverðir og einn lögreglumaður eftir að mæta í skýrslutöku. Vísir gerir ákvörðun sína um að brjóta gegn fréttabanni dómarans að umfjöllunarefni í frétt sinni og skýrir hana þannig að fjölmiðillinn telji dómara málsins „túlka þröngt nýlega meginreglu sem segir að fjölmiðlar megi ekki greina frá því sem fram komi í skýrslutöku fyrr en að henni lokinni. Það sé oftúlkun á lögunum að ekki megi fjalla um neitt fyrr en að öllum skýrslutökum í málinu í heild sé lokið. Engin ástæða sé til að halda frá almenningi upplýsingum úr opnu þinghaldi þegar einstaka hollenskir tollverðir eigi eftir að bera vitni,“ líkt og segir í frétt Vísis.

Í Héraðsdómi í morgun skýrði dómari frá því að hún hefði það til skoðunar hvort Vísir hefði brotið lög með birtingu fréttarinnar og bauð fulltrúum Vísis að gera grein fyrir máli sínu. Lögmaður Vísis færði þau rök fyrir birtingunni að ákvörðun dómara stangaðist á við lög um meðferð sakamála og tjáningarfrelsið og vísaði í þá meginreglu að þinghöld skyldu háð í heyranda hljóði. Dómarinn sagðist ætla að taka það til skoðunar hvort Vísi yrði gert að greiða sekt, gripið yrði til annarra ráðstafana eða málið yrði fellt niður. Hún gat ekki svarað því hvenær ákvörðun muni liggja fyrir – en á meðan ríkir óvissa um túlkun á tilteknu ákvæði. Blaðamannafélag Íslands hvetur dómara til að hafa í huga ofangreind sjónarmið um tjáningarfrelsið, aðhaldshlutverki fjölmiðla, vilja löggjafans og meginregluna um að þinghald skuli fara fram í heyranda hljóði. Að mati Blaðamannafélagsins er eina rétta ákvörðun dómara sú að láta málið gegn Vísi niður falla. Því fól Blaðamannafélagið lögmanni félagsins, Flóka Ásgeirssyni, að skrifa bréf fyrir hönd félagsins til Dómstólasýslunnar, allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis og dómsmálaráðherra þar sem lagaleg hlið málsins er skýrð. Félagið beinir þeirri eindregnu áskorun til allra viðtakenda bréfsins að leggja sitt af mörkum til að tryggja að fjölmiðlar fái í reynd notið þess tjáningarfrelsis sem þeir eiga að njóta samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðasáttmálum.

Afrit af bréfinu má finna hér.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ