Blaðamenn stefna ríkinu vegna takmörkunar á aðgengi

Mynd/Golli
Fyrsta stopp í skipulagðri hópferð fjölmiðla um útjaðra Grindavíkur 5. febrúar sl.
Mynd/Golli
Fyrsta stopp í skipulagðri hópferð fjölmiðla um útjaðra Grindavíkur 5. febrúar sl.

Blaðamannafélag Íslands óskaði í dag eftir flýtimeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna máls sem félagið höfðar á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á rétti blaðamanna til þess að stunda störf sín í Grindavík þrátt fyrir ákvörðun um brottflutning af svæðinu. Félagið krefst þess að viðurkennt verði með dómi að blaðamönnum sé það heimilt án sérstaks leyfis lögreglustjórans á Suðurnesjum, fari þeir að þeim almennu fyrirmælum sem í gildi eru á hverjum tíma um umferð um bæinn og lokun einstakra svæða og öðrum lögmætum fyrirmælum lögreglu. 

Frá 16. janúar hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum nær alfarið bannað blaðamönnum að stunda sín störf í Grindavík þó svo að umfangsmiklar aðgerðir hafi farið þar fram á vegum stjórnvalda auk þess sem íbúum var heimilað að vitja eigna sinna. Að kvöldi 4. febrúar sl. fengu fjömiðlar tilkynningu frá lögreglustjóranum um að morguninn eftir yrði stefnt að því að fara með fjölmiðla til Grindavíkur í fylgd viðbragðsaðila. Þar kom fram að fjölmiðlar hafi verið útilokaðir frá svæðinu "af tilliti til íbúa Grindavíkur og vegna umfangs aðgerða viðbragðsaðila".

Skömmu fyrir fyrirhugaða brottför birti lögreglustjórinn á Suðurnesjum eftirfarandi tilkynningu á samfélagsmiðlum:
„Í dag er farið með fjölmiðlafólk til Grindavíkur í fylgd viðbragðsaðila. Mæting er við lokunarpóst á Suðurstrandarvegi klukkan 13. Fjölmiðlafólki verður svo fylgt út af
 svæðinu kl. 15. Athygli er vakin á því að farið er á ákveðna staði undir eftirliti viðbragðsaðila. Um nokkurt skeið hefur fjölmiðlafólki ekki verið hleypt inn í Grindavík en helsta ástæða þess hefur verið óánægja íbúa með veru fjölmiðlamanna inn í bænum á meðan aðgangur þeirra sjálfra hefur á sama tíma verið takmarkaður. Þá er umfang aðgerða viðbragðsaðila með þeim hætti að erfitt hefur reynst að sinna öllum verkefnum m.a. að taka á móti fjölmiðlafólki og sinna þeim með þeim hætti sem við helst kjósum. Grindvíkingar eru í erfiðri stöðu og er þess vænst að fjölmiðlafólk sýni fordæmalausri stöðu þeirra skilning í störfum sínum.“

Blaðamönnum safnað í bíl sem stoppaði þar sem lögreglan leyfði

Framangreindum ákvörðunum lögreglustjórans á Suðurnesjum var hrint í framkvæmd með þeim hætti að blaðamönnum var safnað saman í hópferðarbíl á vegum lögreglu við lokunarhlið fyrir utan bæinn og ekið þaðan inn í Grindavík þar sem stoppað var á stöðum sem ákveðnir voru af lögreglu. Alls var um sex stutt stopp að ræða. Í öllum tilvikum var um að ræða staði fjarri þeim svæðum þar sem íbúar voru samtímis að vitja eigna sinna. Ekki var leyft að yfirgefa þessa staði og bann lagt við því að fljúga flygildum til myndatöku úr hæð sem náð gæti myndum af öðrum svæðum bæjarins. Fram kom í samskiptum blaðamanna við lögreglu að framangreindar takmarkanir væru gerðar til að koma í veg fyrir að blaðamenn gætu myndað eða fylgst með íbúum bæjarins sem væru að vitja eigna sinna og að það væri gert af tillitssemi við þá.

Félagið telur að ákvörðun lögreglustjórans að takmarka störf blaðamanna undanfarnar vikur sé ólögmæt og takmarki tjáningarfrelsi þeirra. Blaðamenn njóta frelsis til að taka við og miðla upplýsingum til almennings sem nýtur verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu frelsi blaðamanna verða því aðeins settar skorður að til þess standi fullnægjandi heimild í lögum og þá aðeins að því marki sem nauðsyn ber til í lýðræðissamfélagi. Viðurkennt er í dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu að við mat á slíkri nauðsyn þurfi að taka mið af mikilvægi þess hlutverks sem fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi. Ráðstafanir stjórnvalda sem takmarka starfsemi fjölmiðla og hefta möguleika þeirra til að gegna framangreindu hlutverki sínu þurfa samkvæmt framansögðu að eiga skýra stoð í lögum og mega ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til verndar þeim lögmætu hagsmunum sem búa þeim að baki. Slíkir hagsmunir þurfa jafnframt að vera nægilega þungvægir til þess að réttlæta þá skerðingu sem í hlut á.

Blaðamenn hafa sérstöku hlutverki að gegna

Að auki hafa blaðamenn sérstöku hlutverki að gegna við öflun og miðlun upplýsinga um þá atburði sem nú eiga sér stað í Grindavík og eiga réttmætt erindi þangað umfram aðra. Stöðu blaðamanna í þessu tilliti verður því ekki jafnað til stöðu óviðkomandi aðila sem ekkert réttmætt erindi eiga inn á hættusvæðið við núverandi aðstæður. Þvert á móti eiga blaðamenn erindi inn á svæðið vegna starfa sinna með sambærilegum hætti og þeir aðilar sem sinna rannsóknum, framkvæmdum eða annars konar lögmætum erindagjörðum á svæðinu.

Lögmaður BÍ í þessu máli, Flóki Ásgeirsson segir að það muni skýrast á næstu dögum hvort héraðsdómur fallist á beiðni um flýtimeðferð. Verði beiðnin samþykkt muni málið þingfest og íslenska ríkinu veittur frestur til að skila greinargerð af sinni  hálfu. Að fram komnum vörnum ríkisins fari svo fram munnlegur málflutningur. Verði fallist á flýtimeðferð megi búast við að niðurstaða héraðsdóms liggi fyrir innan fárra vikna.