Eyðilagði Fréttablaðið íslenskan fjölmiðlamarkað?

Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar og Austurgluggans. Mynd/KOX
Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar og Austurgluggans. Mynd/KOX

Fyrir skömmu birti Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar/Austurgluggans, pistil á vef miðils síns með hugleiðingum um stöðu og þróun fjölmiðla á Íslandi sem hann skrifaði m.a. í tilefni af gjaldþroti Fréttablaðsins. Pistillinn vakti verðskuldaða athygli, en Gunnar veltir þar upp þeirri kenningu, að Fréttablaðið hafi „að vissu leyti eyðilagt íslenskan fjölmiðlamarkað“.

Orðrétt skrifar Gunnar:

„Ég hef þróað með mér kenningu síðastliðin ár, að Fréttablaðið hafi að vissu leyti eyðilagt íslenskan fjölmiðlamarkað. Frí fréttablöð þekktust í nágrannalöndunum, gefin út undir merkjum Metro. Útgáfan hóf göngu sína í Svíþjóð árið 1995 og breiddist út um Evrópu og víðar. Um var að ræða fréttablöð sem hægt var að fá frítt, gjarnan á lestarstöðum eða álíka fjölförnum stöðum. Metro í Bretlandi byggir á sömu hugmynd þótt það hafi ekki tilheyrt sænsku samsteypunni. Fréttablaðið var því ekki byltingakennd uppfinning.

En það var öðruvísi. Í fyrsta lagi lá það ekki frammi heldur borið heim að dyrum enda minni notkun á almenningssamgöngum hér en í samburðarlöndunum. En stóri munurinn lá í blaðamennskunni. Metro-blöðin erlendu eru tiltölulega efnisrýr, stuttur texti, mikið um fræga fólkið og myndir. Textinn í Fréttablaðinu var íburðarmeiri – það var alvöru fréttablað. Í bland við netbyltinguna tel ég þetta hafa vanið Íslendinga á að þurfa ekki að borga fyrir fréttir.

Afleiðingin er að íslenskir fjölmiðlar eru í vandræðum og eftirá í áskriftaþróuninni. Þó eru tilraunir í gangi, Heimildin er að mestu í áskrift, Skessuhorn nær alfarið auk afmarkaðra hluta svo sem Dagmála á Mbl.is og Innherji á Vísi. Síðan eru einhver hlaðvörp, sem ég kann illa að nefna, í áskrift. Er það eðlilegra en að kaupa fréttir á netinu?“

Press.is sló á þráðinn til Gunnars og fékk hann til að taka þessar verðugu vangaveltur aðeins lengra.

Gunnar byrjar á því að taka fram að hann sé ekki að segja nýjar fréttir með þessari kenningu sinni. Hann hafi til að mynda nýlega heyrt erlendan sérfræðing segja: „Við, blaðamenn, erum búnir að skapa okkur stórt vandamál með því að gefa vöru okkar á netinu í allt of langan tíma endurgjaldslaust.“

Nýir leikmenn á auglýsingavellinum 

Afleiðingin er djúpstæð kreppa hefðbundinna einkarekinna fréttamiðla, sérstaklega prentaðra blaða. Þetta á þó við um vefmiðlana líka eins og nýleg vandræði Vice og Buzzfeed News sýna. Rekstrarmódel innlendra vefmiðla er eftir sem áður ótryggt, en eins og kunnugt er taka erlendar vefþjónustur eins og Google og Facebook æ stærri hluta auglýsingatekjukökunnar til sín. Eða eins og Gunnar orðar það: Það eru komnir nýir leikmenn inn á völlinn í auglýsingamálunum, sem eru meira með boltann.

En hvað tekur þá við, þegar hefðbundin rekstrarmódel eru hrunin? Nýjar áskriftarleiðir? 

Fólk þreytist á ókeypis smellubeitufréttum

Gunnar tekur undir það sjónarmið. En bætir við: „Fyrir tíu árum þóttist ég viss um að ókeypis aðgangur að vefmiðlum væri kominn til að vera. Áskriftir væru liðin tíð. En nú trúi ég því að framtíðin liggi í fjölbreyttum greiðslu- og áskriftarleiðum að því sem fólk sækist eftir: áreiðanlegum upplýsingum og vandaðri blaðamennsku.“

Gunnar telur að þegar fólk þreytist á smellubeitufréttum sem reynist of oft innihaldsrýrar verði það reiðubúnara til að borga fyrir betra efni. Landshlutamiðillinn Skessuhorn og landsdekkandi miðillinn Heimildin séu dæmi um þetta: Svo virðist sem þessir miðlar séu í vexti einmitt vegna þess að fleiri íslenskir fjölmiðlaneytendur séu að átta sig á að betra sé að borga fyrir áreiðanlegri upplýsingar og óháða, metnaðarfulla blaðamennsku en að vera ofurseldir smellubeitufréttum ókeypismiðlanna. 

RÚV af auglýsingamarkaði myndi litlu breyta

En hvað með þá háværu kröfu sem lengi hefur heyrst um að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði? Hvernig horfir það við reyndum ritstjóra landsbyggðarmiðils? 

Gunnar rifjar upp að þegar RÚV hætti rekstri héraðsútvarps á Austurlandi á sínum tíma hefðu aðrir miðlar í landshlutanum ekki notið mikið góðs af því í auglýsingatekjum. Hann vísar einnig til niðurstaðna nýrrar rannsóknar sem benda til að innlendir miðlar myndu fá mjög lítinn hluta þeirrar auglýsingaköku sem RÚV fær nú, ef RÚV yrði þvingað út af markaðnum (sbr. frétt Mbl.is). 

Samkeppnin sem mörg landshlutablöð eins og Austurglugginn eiga í sé við blöð í frírri dreifingu, svo sem sjónvarpsdagskrár. Í viðræðum við auglýsendur komi fram að þeir horfi á heildreifingu á svæði eins og það sé eini mælikvarðinn á hvernig náð sé til markhóps. „Þarna er enn horft til prentsins, Austurfrétt er vissulega tæknilega í frídreifingu, enn sem komið er,“ segir Gunnar. 

Stoðþjónusta við litla (landsbyggðar-)miðla?

Hann bendir á að það sem myndi hjálpa litlu landshlutamiðlunum mikið væri að geta haft aðgang að tæknilegri stoðþjónustu án þess að þurfa að greiða fullt markaðsverð fyrir. Það kosti til dæmis milljónir að þróa áskriftar- og/eða greiðsluveggsleiðir fyrir slíka miðla. Fyrirmynd að slíkri þjónustu væri t.d. að finna í Mediehuset Bergen í Noregi. Gunnar veltir því líka upp hvort Blaðamannafélagið gæti hugsanlega gegnt einhverju hlutverki við að miðla slíkri ráðgjafarþjónustu eða annarri þekkingu á þessu sviði? 

Í þessu sambandi segir Gunnar að sér finnist Íslendingar vera frekar aftarlega á merinni í að kynna sér þær tæknilausnir sem séu nú orðnar mögulegar, meðal annars með aðstoð gervigreindar. Þær fáu rafrænu áskriftarlausnir sem í notkun séu á Íslandi séu frekar gamaldags. 

Nýkominn úr blaðamannaskiptum frá Þýskalandi

Meðal ástæðna fyrir því að Gunnar telur sig geta sett fram slíkar fullyrðingar er að hann er nýkominn úr tveggja mánaða dvöl sem gestablaðamaður á einum öflugasta landshlutamiðli Þýskalands, Augsburger Allgemeine. Þangað fór hann á vegum blaðamannaskiptasamtakanna IJP. Þó að Þjóðverjar séu vissulega almennt séð ekki fremstir meðal þjóða í netnotkun og í vefviðskiptalausnum, þá sé heilmikil þróun að eiga sér stað þar á fjölmiðlamarkaði sem draga megi lærdóma af. 

Að vera á eftir í að nýta nýjustu tæknilausnirnar bitni á samkeppnishæfninni. „Peningurinn fer í PR og markaðsmennsku en ekki fréttamennsku. Það er eitt af stóru vandamálunum okkar,“ segir Gunnar.