Hreinskiptið samtal um samskipti við lögreglu

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á fundinum í sal BÍ. Ljósm. Kristinn Magnússon
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á fundinum í sal BÍ. Ljósm. Kristinn Magnússon

Tilefni fundarins með ríkislögreglustjóra, sem fór fram í húsnæði BÍ við Síðumúla 23 fyrir hádegið í dag, fimmtudag, er nýlegar aðgerðir til að hindra blaðamenn við störf.

Líkt og fram hefur komið gripu starfsmenn Isavia til aðgerða til að koma í veg fyrir að blaðamenn gætu myndað brottflutning hælisleitenda á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku. Í beinu framhaldi af því atviki sendi Blaðamannafélagið ríkislögreglustjóra og forstjóra Isavia bréf þar sem óskað er upplýsinga um hver beri ábyrgð á þeirri ákvörðun að starfsmenn beittu ljósabúnaði til að koma í veg fyrir að hægt væri að mynda atburðinn. Farið var fram á frekari upplýsingar um þetta atvik og óskað eftir svörum við tilteknum spurningum. Í framhaldi af bréfinu frá BÍ þáði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri boð Blaðamannafélagsins um að koma á fund með félagsmönnum til að ræða samskipti lögreglu og blaðamanna. Bent hefur verið á að þetta atvik sé ekki einsdæmi um aðgerðir sem tengjast störfum lögreglu þar sem blaðamenn verða fyrir hindrunum við störf.

Ríkislögreglustjóra til fulltingis voru á fundinum Helgi Valberg Jensson, yfirlögfræðingur embættisins, og Gunnar Hörður Garðarsson samskiptastjóri. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, stýrði fundinum, sem var mjög vel sóttur og einkenndist af líflegum og hreinskiptnum samræðum.  

Meðal þess sem fram kom var að það væri upplifun blaðamanna að samskipti við lögreglu hefðu á síðustu misserum farið versnandi. Fram kom einnig að verið er að vinna að undirbúningi nýrrar samskiptastefnu fyrir öll lögregluembætti landsins, og að fullur vilji sé til þess að fulltrúar BÍ fái að eiga aðkomu að þeirri vinnu. Kristinn Magnússon, formaður Blaðaljósmyndarafélagsins, las líka á fundinum upp lista yfir umkvörtunarefni sinna félagsmanna yfir samskiptum við lögreglu á vettvangi og óskaði eftir að samið yrði um verklagsreglur sem forðað gætu slíkum árekstrum í framtíðinni. 

Vekur vonir

Sigríður Dögg segir að fundurinn veki vonir um að í sameiningu geti félagið og ríkislögreglustjóri í samvinnu við lögregluumdæmi landsins og lögreglumenn sjálfa unnið að bættri upplýsingagjöf frá lögreglu, stuðlað að auknu trausti í garð blaðamanna og aukið fræðslu og vitund meðal lögreglumanna um hlutverk blaðamanna og mikilvægi þeirra starfa. „Fyrsta skrefið er alltaf að tala saman og samtalið hófst formlega með þessum góða fundi í dag,“ segir Sigríður Dögg. „Það er mikilvægt að lögreglan, og þá ekki aðeins yfirmenn eða æðstu stjórnendur, skilji hlutverk fjölmiðla og hafi þekkingu á okkar vinnubrögðum. Þannig getum við eflt það traust sem nauðsynlegt er að ríki milli þessara tveggja stétta,“ segir hún. 

Sigríður bendir enn fremur á að eitt af meginhlutverkum blaðamennskunnar er að veita stofnunum samfélagsins aðhald, þar á meðal lögreglunnar. „Við getum til að mynda ekki sinnt þessu grunnhlutverki okkar og veitt lögreglu aðhald fyrir hönd almennings ef við fáum ekki aðgang að vettvangi og upplýsingum. Það er því mikilvægt að lögreglan, og almenningur einnig, skilji hvers vegna það skiptir máli að þessi samskipti séu í lagi,“ segir hún. 

Þessu til viðbótar bendir hún á að fjölmiðlar gegni einnig því mikilvæga hlutverki að skrásetja mikilvæga atburði. Dæmi séu til að mynda um að bann lögreglu við myndatökur af vettvangi hafi orðið til þess að nær engar heimildir séu til um alvarlega atburði. 

„Það var sameiginleg niðurstaða ríkislögreglustjóra og blaðamanna á þessum fundi að koma þessum málum á betri veg. Fundurinn kom með ýmsar góðar hugmyndir sem er nú í okkar höndum að vinna áfram en ég bind miklar vonir við að þær geti skilað árangri,“ segir Sigríður Dögg.