„Landið þar sem blaðamenn hættu að skipta máli“

Greinin fyllir tvær opnur í 1. tbl. Journalisten 2023.
Greinin fyllir tvær opnur í 1. tbl. Journalisten 2023.

Í fyrsta tölublaði danska blaðamennsku-fagtímaritsins Journalisten í ár, sem kom út um síðustu mánaðamót, er fjallað um fall Íslands úr efsta sæti fjölmiðlafrelsislista Blaðamanna án landamæra niður í það fimmtánda. Yfirskriftin er: „Landið þar sem blaðamenn hættu að skipta máli“ (Landet, hvor journalisterne blev ligegyldige). 

Höfundur, sjálfstætt starfandi danskur blaðamaður að nafni Lasse Skytt, byrjar grein sína á að rifja upp að árið 2010 hafi Julian Assange, stofandi WikiLeaks, komið til Íslands „til að nýta tækifæri.“ Kreppan í kjölfar fjármálahrunsins hefði nefnilega gert landið að „háborg fjölmiðlafrelsis“. Er þar vísað til IMMI – Iceland Modern Media Initiative – sem Birgitta Jónsdóttir, þáverandi þingmaður Hreyfingarinnar, átti frumkvæði að á Alþingi og var þar reyndar samþykkt einróma í júní 2010 sem þingsályktun um að Ísland „skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis“. Það var við þessar aðstæður sem Blaðamenn án landamæra færðu Ísland upp í toppsæti fjölmiðlafrelsisvísitölunnar (ásamt Finnlandi). Eins og áður segir hefur Ísland nú, rúmum áratug síðar, sigið niður í 15. sæti á meðan hin Norðurlöndin verma toppsætin, sem fyrr. 

Höfundur vísar reyndar líka til spillingarvísitölu Transparency International, en samkvæmt henni er Ísland langspilltasta land Norðurlanda. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland eru þar í topp-5, en Ísland féll árið 2020 alla leið niður í 17. sæti (2022: 14. sæti). 

Lögreglurannsókn til að „kæla“ blaðamenn

Meðal viðmælenda greinarhöfundar eru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans (nú Heimildarinnar) og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ. Samherjamálið er rifjað upp, og sú ákvörðun lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að hefja sakamálarannsókn gegn fjórum blaðamönnum í tengslum við fréttaflutning af einum anga Samherjamálsins. Höfundur hefur eftir Gunnari Inga Jóhannssyni hæstaréttarlögmanni að fréttaflutningurinn sem um ræði hafi ótvírætt átt erindi við almenning, og að lögreglurannsóknin gegni þeim tilgangi einum að „kæla blaðamennina niður“. 

Eftir Sigríði Dögg er haft að „margir stjórnmálamenn hafi þróað með sér skort á virðingu fyrir hlutverki fjölmiðla í lýðræðissamfélagi“. „Við höfum að undanförnu séð ítrekuð dæmi þess að íslenskir stjórnmálamenn nánast kerfisbundið taki blaðamenn niður fyrir tilraunir þeirra til að verja tjáningarfrelsið,“ hefur greinarhöfundur eftir henni (í lauslegri þýðingu). 

Eftir Þórði Snæ er meðal annars haft: „Á Íslandi hafa margir nokkuð óþroskaðar hugmyndir um hlutverk fjölmiðla sem eins af burðarstólpum lýðræðisins. Þeir álíta blaðamenn ekki skipta máli. Þess í stað er samfélagið okkar gegnsýrt af spillingarmentalíteti, þar sem reglan um „greiða gegn greiða“ gildir. Aðgangur að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra byggist á því að þú standir inni í tjaldinu og pissir út, frekar en að standa utan við það og pissa inn.“ 

Greinina má lesa í heild á vef Journalisten.dk

Athugasemd: Umrædd grein Lasse Skytt í Journalisten hefur verið leiðrétt eftir að í ljós kom að Skytt hafði tekið tilvitnuð ummæli viðmælenda sinna úr öðrum fjölmiðlum og sett þau fram eins og þau hefðu komið fram í viðtali hans við viðælendur fyrir greinina, þ.á.m. þrjár tilvitnanir í Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann BÍ. Ein þeirra er í greininni hér að ofan, og hefur verið fjarlægð úr grein Skytte í Journalisten, en er líklega upprunnin úr viðtali við Sigríði á vefnum visir.is