Samkomulag um aðgengi blaðamanna að hamfarasvæðum á Reykjanesi

Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri og Flóki Ásgeirsson lögmaður BÍ ræddu aðgengismál fjölmiðla við féla…
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri og Flóki Ásgeirsson lögmaður BÍ ræddu aðgengismál fjölmiðla við félagsmenn BÍ á fundi í húsakynnum félagsins 28. febrúar sl.

Blaðamannafélag Íslands og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafa gert samkomulag um bætt aðgengi fjölmiðla að hamfarasvæðum á Reykjanesi. Í því felst að Blaðamannafélag Íslands hefur gefið út númeraða passa sem veita félagsmönnum aðgengi að Grindavík og öðrum svæðum sem teljast hættusvæði en fjölmiðlar þurfa aðgang að til að geta veitt stjórnvöldum aðhald, sagt fréttir og skrásett söguna.

Forsaga málsins er sú að Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum þáði boð félagsins um að mæta á félagsfund í húsakynnum Blaðamannafélagsins sem opinn var öllum félagsmönnum sem eru starfandi á fjölmiðlum. Á fundinum fór fram opið samtal um aðgengi að Grindavík og öðrum hamfarasvæðum á Reykjanesi þar sem blaðamenn lýsti áhyggjum sínum af aðgengishindrunum. Í kjölfar fundarins setti BÍ saman minnisblað sem varð grunnur samkomulags sem nú hefur litið dagsins ljós.
 
Samkomulagið sem nú hefur tekið gildi felur í sér að Blaðamannafélagið gefur út númeraða passa með samþykki Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Pössunum var skipt niður á þá fjölmiðla sem mest hafa sinnt hamfarasvæðum á Reykjanesi og hluti þeirra er í vörslu félagsins og geta sjálfstætt starfandi félagsmenn óskað eftir því að fá í hendur passa tímabundið.  
 
Blaðamannafélagið hefur lagt áherslu á að aðgengi blaðamanna að hamfarasvæðum sé á pari við aðgengi viðbragðsaðila. Í samkomulaginu eru gerðar auknar kröfur um búnað sem blaðamenn þurfa að hafa meðferðis til að komast inn á svæðin, til að mynda þurfa fjölmiðlar að koma sér upp tetra-stöðvum og gasmælum til að fyllsta öryggis sé gætt. 
 
„Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna á hamfaratímum við upplýsingaöflun og miðlun upplýsinga og mun lögreglustjórinn á Suðurnesjum leggja sig fram um að tryggja blaðamönnum aðgengi inn á hættusvæði með viðeigandi hætti. Þeir starfi þó ávallt á eigin ábyrgð inn á skilgreindum hættusvæðum,“ segir meðal annars í samkomulaginu
 
Blaðamannafélag Íslands fagnar því að þetta samkomulag hafi náðst. Með því sé viðurkenndur réttur blaðamanna til þess að sinna störfum á hamfarasvæðum og aðgengi þeirra sé til jafns við aðra viðbragðsaðila, enda séu þeir fulltrúar almennings í aðstæðum sem þessum. Þau skilyrði sem lögreglustjóri setur eru að mati félagsins fullkomlega ásættanlegar, mikilvægt er að tryggja öryggi blaðamanna við hættulegar aðstæður.
 
Félagið vonar að þetta samkomulag sé fyrirmynd að því sem koma skal í samskiptum blaðamanna og stjórnvalda. 
 
 Fundur BÍ með lögreglustjóra  Fundur BÍ með lögreglustjóra  Fundur BÍ með lögreglustjóra