Skopmynd Halldórs ekki brot á siðareglum BÍ

Skopmynd Halldórs Baldurssonar sem birtist á Vísi 18. maí
Skopmynd Halldórs Baldurssonar sem birtist á Vísi 18. maí

Úrskurður Siðanefndar BÍ nr. 1/2024-2025 vegna kæru Arnars Þórs Jónssonar vegna skopmyndar eftir Halldór Baldursson á Vísi.is hefur verið birtur. Úrskurðinn má finna hér.
Siðanefnd telur skopmynd Halldórs ekki hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands.

Í kærunni segir að mynd Halldórs Baldurssonar brjóti gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Kæranda sé stillt upp í búningi sem augljóslega eigi að vera nasistabúningur. Slík framsetning sé „hvorki málefnaleg né fyndin, heldur meiðandi og ómálefnaleg.“ Ekkert sem hann hafi sagt eða skrifað gefi „Halldóri né Vísi lögmætt tilefni til að setja persónu [sína] í það samhengi sem þarna getur að líta.“

Í andsvörum kærða Halldórs segir m.a. að til að skilja skopmynd þurfi lesandi að geta sett sig inn í frásagnarformið. Hefðbundið sé að teiknari tjái sig með kaldhæðni, ýkjum og líkingamáli til að koma inntaki myndarinnar til skila. Í andsvörunum er bent á að kærandi sé málsvari klassísks frjálslyndis, en upphaf nútímaskopmyndarinnar megi rekja til frjálslyndra hugsuða fyrri alda, sem lagt hafi grunninn að einstaklingsfrelsi, mannréttindum og tjáningarfrelsi dagsins í dag. Þeir þættir „séu nauðsynlegir til að skopmyndin og gagnrýnin blaðamennska geti þrifist í greiningum sínum á samfélagslegu ástandi.“

Í andsvörum kærða Halldórs segir enn fremur að inntak skopmyndarinnar hafi verið að vísa til þess versta sem sagt hefur verið um forsetaframbjóðendur á samfélagsmiðlum. Ýkt framsetning myndarinnar ætti að draga lesandann að þeirri niðurstöðu að umræðan fari yfir mörkin. Kærði bendir á að kærandi hafi í störfum sínum sem stjórnmálamaður og forsetaframbjóðandi gengist í „þann óskrifaða samfélagssáttmála“ að taka opinberri gagnrýni.

Í andsvörum kærða Vísis segir að sá annmarki sé á kæru málsins að ekki sé rökstutt með neinum hætti hvernig umrædd skopmynd telst vera í andstöðu við 1., 2. og 6. gr. siðareglnanna. Kærði telur fjarri lagi að myndin geti talist hafa brotið í bága við siðareglurnar, heldur þvert á móti styrki siðareglurnar málstað kærðu. Með birtingu skopmynda sé staðinn vörður um tjáningarfrelsið, frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga. Engum staðreyndum sé hagrætt heldur leitast við að endurspegla gildismat almennings sem birst hafi í opinberri umræðu. Þá „blasi við“ að verið sé að endurspegla skoðanir, en ekki staðreyndir, á eins hlutlægan hátt og satíra skopmynda leyfir. Þá er í andsvörunum vakin athygli á 12. gr. siðareglnanna en þar segir að siðareglurnar setji ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna.

Í umfjöllun Siðanefndar kemur fram að skopyndin feli í sér tjáningu kærða Halldórs Baldurssonar og siðareglurnar setji ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna, þótt kærði kunni að bera ábyrgð á gagnvart kæranda eftir almennum réttarreglum. Valdsvið nefndarinnar takmarkast við að ákveða hvort brotið hafi verið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Siðanefndin gat ekki fallist á það með kæranda að myndin brjóti gegn 1., 2. og 6. gr. siðareglnanna, og þá væri ekki unnt að heimfæra myndina undir brot gegn öðrum greinum reglnanna. Telji kærandi að tjáning kærða hafi vegið að æru hans eða mannorði með almennum hætti, heyri slíkur ágreiningur undir dómstóla og lýtur settum lögum, en ekki siðareglum og Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands. Því teljist kærðu, Halldór Baldursson og Vísir.is, ekki hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands með birtingu skopmyndar þann 18. maí sl.