Þýska blaðamannasambandið yfirgefur IFJ

DJV, landssamband blaðamanna í Þýskalandi, upplýsti í dag, 8. maí, að það hefði sent úrsagnarbréf til höfuðstöðva Alþjóðasambands blaðmanna, IFJ, í mótmælaskyni við sömu ógegnsæju og ólýðræðislegu starfshætti og ollu úrsögn norrænu félaganna fyrr á þessu ári.

Félög blaðamanna á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Finnlandi voru samstiga um úrsögn í janúar síðastliðnum, og mun hún taka gildi í júlímánuði næstkomandi. Úrsögn þýska félagsins tekur gildi í nóvember. 

Þýska blaðamannasambandið, Deutscher Journalistenverband (DJV), var meðal stofnfélaga IFJ og fellur því ákvörðunin um úrsögn mjög þungt. En hún kemur í kjölfar þess að DJV samþykkti á aðalfundi fyrir fimm árum ályktun um að yrði ekki gerð bragarbót á vinnubrögðum hjá IFJ að þá væri þýska sambandinu nauðugur einn kostur að segja sig úr Alþjóðasambandinu. 

„Við leituðum lengi lausna í samtali við stjórnendur IFJ, en án árangurs,“ er haft eftir Frank Überall, formanni DJV í fréttatilkynningu

DJV er regnhlífarsamband blaðamannafélaga í Þýskalandi með um 30 þúsund virka félagsmenn. Úrsögn þýska félagsins er því enn meiri blóðtaka fyrir IFJ en að missa norrænu félögin úr sínum röðum. 

Í fréttatilkynningunni frá DJV er skýrt tekið fram að aðild þess að Evrópska blaðamannasambandinu EFJ standi óhögguð, og lof borið á hvernig það hafi staðið sig í að verja tjáningarfrelsið og hagsmuni blaðamanna í álfunni.