Úr Blaðamanninum: Vitundarherferð til eflingar blaðamennsku

Titill leiðarans í Blaðamanninum, 1. tbl. 45. árg., desember 2023.
Titill leiðarans í Blaðamanninum, 1. tbl. 45. árg., desember 2023.

Leiðari Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns BÍ, í 1. tölublaði 45. árgangs Blaðamannsins sem kom út um áramótin. 

Vegið að tjáningarfrelsi, risagjaldþrot, hnignandi fjölmiðlafrelsi, vitundarherferð og kjaraviðræður.

Þegar þetta ár, 2023, er gert upp út frá sjónarhóli blaðamennsku og blaðamanna er því miður lítið tilefni til þess að gleðjast. Eitt stærsta fjölmiðlagjaldþrot síðari ára varð staðreynd og misstu hátt í hundrað manns lífsviðurværi sitt, þar af næstum fimmtíu félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands. Ísland hrapaði enn á lista Blaðamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi ríkja og situr nú í 18. sæti, og sker sig úr öðrum Norðurlöndum sem raðast í efstu sætin. Blaðamenn hafa þurft að standa í átökum við yfirvöld um ekki veigaminni réttindi en sjálft tjáningarfrelsið og hafa jafnframt margítrekað þurft að minna á mikilvægi fjölmiðlafrelsis í lýðræðissamfélagi. Fyrir rúmu ári heftu starfsmenn ISAVIA aðgengi fjölmiðla að vettvangi og hefur félagið farið fram á að lögregla, ISAVIA og dómsmálaráðherra bregðist við í samræmi við alvöru málsins og leitaði meðal annars til Umboðsmanns Alþingis. Félagið mótmælti einnig ákvörðun dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur að banna fréttaflutning úr dómsal af tilteknu máli í sjö vikur á meðan skýrslutökur fóru fram og telur hana stangast á við ákvæði um tjáningarfrelsi í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála.

Þá kærði BÍ nýverið fyrirmæli lögreglustjórans á Suðurnesjum um takmörkun á aðgengi fjölmiðla að hættusvæði á Reykjanesskaganum og mótmælti ennfremur banni sem sett var á drónaflug. Þessu til viðbótar eru enn fimm blaðamenn með réttarstöðu sakbornings fyrir það eitt að vinna vinnuna sína og er haldið í fullkominni óvissu um framgang rannsóknar eða stöðu málsins. Slík meðferð gengur þvert gegn leiðbeiningum alþjóðastofnana á borð við Evrópuráðið sem til að mynda hafa lagt á það ríka áherslu á að gætt sé varkárni í rannsóknum sem snúi að blaðamönnum.

En hvers megum við vænta á árinu sem er að taka við? Getum við leyft okkur bjartsýni? Er eitthvað sem við sem stétt getum gert til þess að stuðla að því að blaðamenn og blaðamennska eigi auðveldara uppdráttar, fái meiri stuðning í samfélaginu og mikilvægi hennar verði metið að verðleikum? Stjórn BÍ hefur ákveðið að ráðast í herferð í byrjun nýs árs með það að markmiði að efla vitund um mikilvægi blaðamennsku og öflugra fjölmiðla meðal almennings, valdhafa og auglýsenda. Vonumst við til þess að þannig megi efla vitund um mikilvægi faglegrar blaðamennsku og nauðsyn þess að styrkja rekstrargrundvöll öflugra, frjálsra fjölmiðla. Vonumst við til að sem flestir félagar leggi herferðinni lið og taki höndum saman um að efla fagið og stéttina, auka samheldni og samvinnu, í þágu okkar allra. Framundan eru jafnframt krefjandi kjaraviðræður, því kjarasamningar renna út í lok janúar, og eitt meginmarkmið herferðarinnar er að skapa grundvöll fyrir sjónarmið félagsins um þörf fyrir bætt kjör blaðamanna, sem barist verður fyrir í komandi samningaviðræðum.