Vitundaherferð um mikilvægi blaðamennsku

Ágætu félagsmenn,
í dag, þriðjudag, hrindum við vitundarherferð BÍ úr vör. Markmið hennar er að vekja fólk til vitundar um mikilvægi blaðamennsku fyrir samfélagið.

Textinn í aðalauglýsingunni er eftirfarandi:

Lykilskilaboðin sem herferðin byggir á eru:

Hlutverk blaðamanna

Blaðamenn draga saman upplýsingar, setja hlutina í samhengi og greiða úr óreiðunni.  Þeir koma á framfæri ólíkum sjónarmiðum, setja fram staðreyndir og kanna sannleiksgildi þess sem sagt er.

Aldrei meiri þörf fyrir blaðamennsku

Aukin pólaríseríng og upplýsingaóreiða gerir það að verkum að aldrei hefur verið meiri þörf fyrir vandaða blaðamennsku til að veita aðhald og greina rétt frá röngu.

Fyrir upplýst samfélag

Íslenskir blaðamenn standa vaktina alla daga, allt árið um kring, upplýsa og spyrja krefjandi spurninga, með hag almennings að leiðarljósi. 

Birting og dreifing:
 
Við höfum nú birt sjónvarpsauglýsinguna á vef okkar, press.is, og í framhaldi birtast auglýsingar í hinum ýmsu miðlum næstu daga og vikur – í útvarpi, sjónvarpi, prentmiðlum og á vefmiðlum - og á samfélagsmiðlum. Lendingarsíða fyrir vefauglýsingar er bladamennska.is, þar sem þið getið fundið allt efni tengt herferðinni. Sú síða fer í loftið í dag.
 
Samhliða þessu birtum við viðtalsmyndbönd við blaðamenn um blaðamennsku, sem ætluð eru til dreifingar á samfélagsmiðlum, sem við þurfum ykkar hjálp við að dreifa.
 
Þar sem BÍ greiðir af prinsippástæðum ekki fyrir birtingar á samfélagsmiðlum biðlum við því til ykkar, ágætu félagsmenn, um að þið takið þátt í að dreifa þessum skilaboðum sem víðast, bæði sjónvarpsauglýsingunni og viðtalsmyndböndunum.
 
Leiðbeiningar (til að snúa á algóryþmann og tryggja sem besta dreifingu):
 
Við höfum fengið þær leiðbeiningar frá auglýsingastofunni sem við erum að vinna með að til þess að ná sem mestri útbreiðslu á samfélagsmiðlum, án þess að borga fyrir birtingu, er mikilvægt að þið skrifið ykkar eigin skilaboð, með ykkar eigin orðum, með póstunum (t.d. stutt saga úr blaðamennskunni, hvernig blaðamenn vinna, hver eru gildi blaðamennsku, til hvers hafa blaðamenn siðareglur, eitthvað um hvernig þið dílið við upplýsingaóreiðuna, af hverju þið veljið að starfa sem blaðamenn, o.s.frv.).
 
Deilum sem flestum færslum og lækum líka færslur annarra:
 
Við verðum að vera ófeimin við að dreifa mörgum færslum hvert og eitt okkar, til þess að ná útbreiðslu. Endilega deilið færslum á sem flestum samfélagsmiðlum og í sem flestum útgáfum (post, story, reels o.s.frv.). Svo er líka mikilvægt að læka allar færslur sem aðrir eru að deila. Eina leiðin til þess að ná til fólks á samfélagsmiðlum er að við tökum höndum saman um að leggja herferðinni lið með þessum hætti. Við viljum fyrst og fremst að skilaboðin okkar ná í gegn – en við viljum líka keyra árangursríka herferð án þess að borga erlendum tæknirisum krónu – og skipta eingöngu við innlenda auglýsingamiðla. 
 
Með von um jákvæðar undirtektir og gott samstarf,
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður.