Forstjóri Isavia vísar ábyrgð til ríkislögreglustjóra

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia
Mynd: Isavia.is
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia
Mynd: Isavia.is

Í svari við bréfi því sem BÍ sendi Isavia föstudaginn 4. nóvember, þar sem krafist var svara við spurningum um atburðarásina þegar fréttamenn voru hindraðir í starfi af starfsmönnum Isavia á Keflavíkurflugvelli aðfaranótt 3. nóvember (sbr. frétt Press.is), vísar Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, allri ábyrgð á því sem gerðist á embætti ríkislögreglustjóra, „enda var um að ræða lögregluaðgerð sem embættið ber ábyrgð á og fór með alla stjórn aðgerða á vettvangi.“ Hann vísar því öllum fyrirspurnum um málið til ríkislögreglustjóra. 

Síðan segir í svarinu frá forstjóranum: 

„Þegar rútan kom á Keflavíkurflugvöll með lögreglufylgd var óskað var eftir aðstoð starfsmanna Isavia við að koma rútunni í skjól. Orðið var við beiðninni á vettvangi og var lögregla á öllum stundum upplýst um gang mála.

Starfsfólk Isavia hefur síðan farið yfir atburðarás málsins og átti fund með fulltrúm embættis ríkislögreglustjóra. Á þeim fundi var farið yfir samskipti lögreglu og starfsfólks Isavia. Ákveðið var að setja í gang sameiginlega vinnu beggja aðila þar sem ferli og verklag í aðgerðum af þessu tagi er tekið til endurskoðunar. Áhersla verður þar lögð á skýrt hlutverk starfsfólks Isavia þannig að aldrei verði nokkur vafi um fyrirmæli lögreglu. 

Isavia hefur þegar harmað þau mistök sem gerð voru og beðist afsökunar á þeim. Við erum nú sem fyrr reiðubúin til að eiga gott samstarf við Blaðamannafélag Íslands og alla fjölmiðla þegar óskað er eftir að sinna störfum á Keflavíkurflugvelli.“ 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, mun svara bréfinu frá forstjóra Isavia og biðja um fund með honum í framhaldinu. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri mætti ásamt tveimur öðrum starfsmönnum embættisins sl. fimmtudag, 10. nóvember, á fjölsóttan fund með blaðamönnum í sal BÍ þar sem þetta mál var rætt. Í því samtali kom skýrt fram af hálfu ríkislögreglustjóra að enginn af starfsmönnum embættisins, sem vissulega báru ábyrgð á framkvæmd brottvísingaraðgerðarinnar, hefði gefið fyrirmæli um að hindra störf fréttamanna. Virðast starfsmenn Isavia, sem beindu fljóðljósum að fréttateymi RÚV á vettvangi, því hafa staðið í þeirri trú – fyrir misskilning? – að þeir væru með þessum aðgerðum að framkvæma beiðni lögreglu, án þess að nein slík beiðni hefði í raun komið frá lögreglu á vettvangi. Að mati BÍ þarfnast þetta frekari skýringa af hálfu bæði Isavia og embættis ríkislögreglustjóra.