Umboðsmaður lýkur skoðun á "fljóðljósamáli"

Mynd: Kristján Þór Ingvarsson/RÚV. Birt með leyfi RÚV
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson/RÚV. Birt með leyfi RÚV

Umboðsmaður Alþingis hefur með bréfi lokið athugun á máli sem varðar hindrun lögreglu á störfum blaðamanna sem BÍ kvartaði til hans um. Í nóvember í fyrra voru fréttamenn RÚV á vettvangi þegar verið var að flytja hælisleitendur úr landi. Var öflugum ljósabúnaði beint að myndavélum á Keflavíkurflugvelli í því skyni að koma í veg fyrir að blaðamenn gætu fylgst með eða fest á mynd það sem þar fór fram og er það skýlaust brot gegn tjáningarfrelsi og hindrun á störfum blaðamanna.

Tilefni kvörtunar til Umboðsmanns var að Blaðamannafélagið taldi að dómsmálaráðuneytið hefði ekki svarað með fullnægjandi hætti spurningum félagsins um viðbrögð dómsmálaráðherra sem yfirmanns lögreglumála við þessu athæfi. Umboðsmaður brást við kvörtun BÍ með því að senda dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem spurt er um ástæður þess að erindi BÍ til ráðuneytisins hafi af þess hálfu ekki verið talið veita tilefni til viðbragða. Dómsmálaráðuneytið svaraði Umboðsmanni, og í framhaldinu sendi BÍ dómsmálaráðuneytinu bréf með sömu spurningum og ekki hafði áður fengist svör við. Eftir talsverða eftirfylgni af hálfu BÍ fengust loks svör og sendi BÍ þá Umboðsmanni bréf og óskaði eftir því að draga kvörtunina til baka. 

Dómsmálaráðuneytið staðfesti í svari til Umboðsmanns, og í framhaldinu svari til BÍ, að starfsmenn ISAVIA hefðu talið að þeir væru að fara að fyrirmælum lögreglu um að hindra störf blaðamanna. Fram kemur að tvær slökkviliðsbifreiðar og nokkrar minni bifreiðar á vegum ISAVIA hafi á meðan aðgerðum stóð beint ljóskösturum í átt að fjölmiðlum sem staddir voru utan við flugverndarsvæðið og voru að reyna að taka upp aðgerðir lögreglu. Þá kom fram að ríkislögreglustjóri hefði í framhaldi af því að fulltrúar blaðamanna kvörtuðu formlega undan athæfinu, "tafarlaust gert breytingar á verklagi við brottvísanir til að tryggja að atvik sem þessi endurtækju sig ekki, farið hafi verið yfir alla verkferla á Keflavíkurflugvelli í málum sem þessum til að tryggja rétta framkvæmd". Þá segir einnig í bréfi Umboðsmanns að ráðuneytið hafi ekki talið ástæðu til að ætla að ætla, samkvæmt þeim upplýsingum sem það fékk frá ríkislögreglustjóra, að starfsmenn embættisins hafi gefið fyrirmæli um að beina ljósum að fjölmiðlum í þeim tilgangi að hindra störf þeirra. "Fulltrúar ISAVIA hafi heldur ekki gefið til kynna að svo hafi verið og því verið talið líklegast að ákvörðun um beitingu ljósanna hafi byggst á misskilningi," segir ennfremur í bréfi Umboðsmanns. Í því segir einnig að dómsmálaráðuneytið taki fram að réttara hefði verið að svara upphaflegu erindi Blaðamannafélagsins með nánari hætti.

Umboðsmaður bendir Blaðamannafélaginu á að þar sem dómsmálaráðuneytið hafi nú svarað BÍ telji hann ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af þeim þætti kvörtunarinnar. Hvað varðar afskipti lögreglu af störfum blaðamanna þá bendir Umboðsmaður BÍ á að hugsanlega geti það freistað þess að leita til nefndar um eftirlits með starfi lögreglu.

Blaðamannafélagið hefur nú til skoðunar hvernig málinu verður fram haldið.