BÍ kvartar til UA vegna ófullnægjandi svara ráðherra

Blaðamannafélag Íslands hefur sent Umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna fullkomins áhuga- og skilningsleysis dómsmálaráðherra á alvarleika þess að stjórnvöld í lýðræðisríki hindri fréttaflutning af eigin aðgerðum umfram það sem heimilt er samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. 

Eins og greint var frá hér á Press.is fyrir þremur vikum sendi Blaðamannafélagið dómsmálaráðherra bréf í janúar þar sem fjórum spurningum var beint til hans sem yfirmanns lögreglumála á Íslandi um flóðljósamálið svonefnda, þegar fréttamenn voru hindraðir við störf á vettvangi á Keflavíkurflugvelli þar sem verið var að vísa hælisleitendum úr landi aðfaranótt 3. nóvember sl. Félaginu barst nokkru síðar svar sem Fjalar Sigurðarson upplýsingafulltrúi skrifar fyrir hönd ráðherra. Svarið var svohljóðandi: 

„1. Nei, ekki hefur verið sóst eftir nánari upplýsingum en þeim sem RLS hefur þegar gefið út opinberlega. 

2.  …

3. Ekki verður betur séð en að RLS hafi tekið þetta einangraða tilvik föstum tökum og rætt það ekki aðeins innan lögreglunnar heldur einnig við ISAVIA og Blaðamannafélag Íslands. Í viðbrögðum lögreglu hefur glögglega komið fram að lögreglan álítur þetta tilvik ekki dæmi um rétt vinnubrögð eða viðbrögð og ekki verður betur séð en fullur vilji sé þar innanhúss að tryggja sem best að ekki komi til árekstra gagnvart fjölmiðlum. 

4. Eins og kemur fram í svari 3. hefur RLS þegar gripið til ráðstafana til að tryggja að þetta endurtaki sig ekki. Dómsmálaráðherra er þess fullviss að lögreglan muni fylgja því eftir og sér ekki ástæða til að fara nánar ofan í saumana á umræddu bílljósamáli á Keflavíkurflugvelli.“ 

Blaðamannafélagið telur þessa afgreiðslu á formlegu erindi sínu til dómsmálaráðherra vera óviðunandi. Eftir stendur að enn hefur ekki verið upplýst hver tók ákvörðun um að hindra fréttamenn við störf með þeim grófa hætti sem gert var í þessu tilviki. Svarið frá ráðuneytinu sýnir skýrt að þar til bær stjórnvöld ætla ekki að aðhafast neitt frekar í því að upplýsa málið. Félagið hefur því falið lögmanni sínum að taka málið áfram í formi kvörtunar til umboðsmanns Alþingis. Sú kvörtun var send til embættis umboðsmanns Alþingis í dag, 20. febrúar. 

Áhuga- og skilningsleysi ráðherra

Í erindinu til umboðsmanns, sem Flóki Ásgeirsson lögmaður skrifar fyrir hönd BÍ, segir meðal annars: „Í [þessu] sambandi vekja svör dómsmálaráðherra við fyrirspurnum Blaðamannafélags Íslands sérstaka athygli, en af þeim verður ráðið fullkomið áhuga- og skilningsleysi ráðherra á alvarleika þess að stjórnvöld í lýðræðisríki hindri fréttaflutning af eigin aðgerðum umfram það sem heimilt er samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.“ 

Um forsendur kvörtunarinnar segir ennfremur: 

„Bein íhlutun stjórnvalda í störf fjölmiðla, sem hindrar fréttaflutning og verður þess valdandi að fjölmiðlum er gert ókleift að sinna því hlutverki sínu að miðla til almennings upplýsingum um starfsemi stjórnvalda, heggur að kjarna þess tjáningarfrelsis sem verndað er með 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Til þess að slík íhlutun fái samrýmst þessum ákvæðum þarf hún að byggjast á skýrri heimild í lögum og uppfylla ströngustu kröfur um réttmæti og meðalhóf. Forsenda þess að eftirlitsaðilar geti metið hvort íhlutun uppfylli slík skilyrði er að fyrir liggi hvaða aðili stendur að henni, á hvaða grundvelli það er gert og hvaða ástæður búa þar að baki. Án upplýsinga um þessi atriði er ekki unnt að sýna fram á að íhlutun standist framangreindar kröfur, en sönnunarbyrði þar um hvílir á stjórnvöldum. Grípi stjórnvöld ekki til eðlilegra ráðstafana til að upplýsa atvik þannig að þeim sé unnt að axla þessa byrði verða þau almennt að bera hallann af því.“