Björgvin Guðmundsson(1932 -2019)

 Í drögum að blaðamannatali frá sjötta áratug síðustu aldar kemur fram að Björgvin fæddist í Reykjavík 13. september. Hann hefur stundað nám í menntaskóla og er þá í háskóla í viðskiptafræði. Hann er blaðamaður hjá Alþýðublaðinu þegar umsóknin er skrifuð, byrjaði í blaðamennsku 22. júní 1953, hefur haft hana að aðalstarfi síðan og eingöngu starfað á Alþýðublaðinu. Hann sækir um upptöku í Blaðamannafélag Íslands og fær aðild hinn 7. febrúar 1954 og meðmælendur hans eru Helgi Sæmundsson og Sigvaldi Hjálmarsson, báðir á Alþýðublaðinu.

Því er við að bæta að Björgvin varð síðan viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1958, var blaðamaður og fréttaritstjóri við Alþýðublaðið og Vísi um ellefu ára skeið, umsjónarmaður þáttarins Efst á baugi í Ríkisútvarpinu í  tíu ár, forstjóri BÚR í tvö ár, framkvæmdastjóri  Íslensks nýfisks í níu ár, starfsmaður stjórnarráðsins í 28 ár, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu og sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu. Borgarfulltrúi og borgarráðsmaður fyrir Alþýðuflokkinn í tólf  ár. Formaður borgarráðs í eitt ár, að því fram kemur á heimasíðu hans.  Síðustu ár hefur Björgvin beitt sér fyrir bættum kjörum aldraðra.

http://www.gudmundsson.net/index.asp?lesa=upphaf