Björn P. Kalman (1883-1956)

Björn Pálsson fæddist á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu, sonur Páls Ólafssonar, skálds, og því bróðursonur Jóns Ólafssonar, ritstjóra. Hann hélt til Reykjavíkur um aldamótin 1900 og bjó öll menntaskólaárin hjá föðurbróður sínum, Jóni ritstjóra. Hann hélt að loknu stúdentsprófi 1904 til Danmerkur til að hefja nám í verkfræði og stærðfræði við Hafnarháskóla. Björn þótti undrabarn í skák og fyrir tilstilli Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar sigldi hann með honum til Bandaríkjanna til að hefja nám í Harvard-háskóla jafnframt því sem hann skyldi vera hluti af kappliði skólans í skák. Til þess kom þó ekki vegna andstöðu innan skólans. Jafnframt háði það Birni og hrjáði að honum var nánast ómögulegt að gleyma skák sem hann tefldi og héldu fyrri skákir svo fyrir honum vöku að geðheilsu hans var ógnað. Ákvað hann af þessum sökum að hætta skákiðkun með öllu. Getum hefur verið leitt að því að rithöfundurinn frægi, Stefan Zweig, hafi heyrt af þessum afrekum og óförum Björns vestra og að hann sé fyrirmyndin að fanganum í bækistöðvum Gestapo í sögunni Manntafli. Björn Pálsson hélt til Íslendingabyggða í Kananda og gerðist þar m.a. blaðamaður á Lögbergi um skeið. Hann hélt heim til Íslands á ný árið 1908 og blað hans kveður hann með þeim orðum að hann hafi ritað margt fróðlegt og hagkvæmt í blaðið „og vér erum þess fullvissir að hann hefir mikla blaðamennskuhæfileika, dómgreind, smekkvísi og þekkingu“.

Björn sneri sér að lögfræðinámi þegar heim kom, en starfaði um skeið á Morgunblaðinu, líklega með námi eða strax eftir nám, því í bók sinni Erill og ferill blaðamanns segir Árni Óla frá því að Björn Kalman eins og hann var þá farinn að kalla sig, hafi komið til starfa á blaðinu 1914 í stað Baldurs Sveinssonar. Björn P. Kalman varð síðan málflutningsmaður, en átti í stöðugri baráttu við geðbresti sína. Hákon Bjarnason, frændi hans og fyrrverandi skógræktarstjóri, segir í minningargrein um Björn: „Þegar litið er yfir ævi Björns sést bezt, að það er sitthvað gæfa og gjörvileiki. Hann var gæddur óvenjulegum gáfum, komst til mennta og ávann sér traust og hylli manna. Lífíð virtist leika við hann um miðbik ævinnar. Þá veikist hann og upp frá því hallar ávallt undan fæti.“

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=118804&pageId=1561683&lang=is&q=Bj%F6rn%20Kalman

http://timarit.is/files/15777164.pdf#navpanes=1&view=FitH

http://www.heimaslod.is/index.php/Bj%C3%B6rn_Kalman