Einar Gunnarsson(1874-1922)

Einar fæddist í Nesi í Höfðahverfi, S-Þingeyjarsýslu. Hann stofnaði Vísi árið 1910 og var eigandi og ritstjóri. Kallaði hann blaðið í byrjun Vísi til dagblaðs í Reykjavík sem síðar var stytt í Vísir. Þar með hófst samfelld dagblaðaöld á Íslandi. Einar hafði áður staðið í blaðaútgáfu og  m.a. gefið út blöðin Landvörn 1903 og Unga Ísland 1905. Hann ritstýrði Fjallkonunni nokkra mánuði 1906 og rak blaðadreifingu í söluturninum á Lækjartorgi í miðbænum 1907. Einar ritstýrði svo blaðinu Hugin árið 1907, ópólitísku blaði sem hefur verið talinn forsmekkur að því sem koma skyldi, því upphaflega var Vísir ópólitískt fréttablað, eða fram til ársins 1916 þegar Jakob Möller tók við því. Um Einar Gunnarsson segir Árni Óla í bók sinni Erill og ferill blaðamanns að það hafi verið órækur vottur um hæfileika Einars að hann skyldi koma á fót fyrsta dagblaðinu í Reykjavík sem dafnaði. „En þetta starf varð sorglega endasleppt, því áður en Morgunblaðið varð ársgamalt hafði Einar misst móðinn og selt Vísi. Hann tók þá við ritstjórn Þjóðar 1914-1915. En svo hvarf hann frá blaðamennsku og gerðist bóndi í Gröf í Breiðuvík á Snæfellsnesi.“

Þá segir Árni misskilning hjá Einari að tvö dagblöð geti ekki þróast í Reykjavík, því að „Vísir kemur út enn í dag og er ekkert smáblað á íslenskan mælikvarða“.

http://timarit.is/files/14409123.pdf#navpanes=1&view=FitH&search=%22Einar%20Gunnarsson%22

http://press.dev9.stefna.is/is/um-felagid/utgefid-efni/frettir/dv-100-ara-i-dag