Haraldur Guðmundsson (1892-1971)

Haraldur fæddist í Gufudal í Gufudalssveit í Barðastrandarsýslu. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri árið 1911, stundaði síðan farkennslu á vetrum en margvíslega vinnu á sumrin og var við þessi störf árin 1911-1919. Haraldur var bankamaður á Ísafirði og kaupfélagsstjóri í Reykjavík 1925-1927, en síðan útibússtjóri Útvegsbanka Íslands á Seyðisfirði. Hann var alþingismaður á árunum 1927-1946 og 1949-1957; fyrst sem þingmaður Ísfirðinga, þá þingmaður Seyðfirðinga og landskjörinn þingmaður og loks sem þingmaður Reykvíkinga. Hann sat á 34 þingum alls. Haraldur var forseti Sameinaðs Alþingis 1938-1941 og 1942-1943. Hann var formaður Alþýðuflokksins á árunum 1954-1956. Árið 1934 varð hann fyrstur jafnaðarmanna til að setjast í ríkisstjórn sem atvinnumálaráðherra og gegndi því embætti fram í marsmánuð 1938. Síðar á því ári varð hann forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins og veitti henni forstöðu fram á árið 1957, en á því ári var hann skipaður sendiherra Íslands í Noregi, Tékkóslóvakíu og Póllandi með aðsetri í Ósló. Hann lét af því starfi árið 1963 fyrir aldurs sakir og bjó eftir það í Reykjavík. Blaðamennskuferill Haraldar Guðmundssonar miðast við árin 1924 þegar hann er blaðamaður við Alþýðublaðið í Reykjavík og síðar árin 1928-1931 þegar hann var ritstjóri blaðsins. Í riti sínu Blöð og blaðamenn 1733-1944 vitnar Viljálmur Þ. Gíslason í eina af forystugreinum Haraldar í blaðinu þar sem hann fjallar um menningarstefnu nútímans, jafnaðarstefnuna og stutta sögu hennar hér á landi: „En þó er þessi stutta sagan hennar full af sterkviða frásögnum af baráttu undirokaðrar stéttar í þágu þjóðarheildarinnar því að frelsisbarátta alþýðunnar er frelsisbarátta þjóðarinnar.“