Haraldur Jóhannsson (1926-2002)

Haraldur fæddist í Reykjavík 7. júlí. Umsókn um upptöku í Blaðamannafélag Íslands er dagsett 23. september 1951 í drögum þeim að blaðamannatali sem verið var að taka saman á sjötta tug síðustu aldar. Þar kemur fram að hann sé með próf í hagfræði frá Lundúna-háskóla. Hann starfar þá á Þjóðviljanum, kveðst hafa byrjað í blaðamennsku 1944, en nám hafi verið hans aðalstarfi síðan. Meðmælendur á umsókn Haraldar eru Magnús Kjartansson og Sigurður Guðmundsson, báðir á Þjóðviljanum. Um helstu æviatriði segir Haraldur að hann hafi stundað nám við Menntaskólann í Reykjavík 1940-1946, verið við nám í hagfræði við Hafnar-háskóla 1946-1947, en síðan við háskólann í Lundúnum 1947-1951. Frekari upplýsingar eru ekki á umsókninni.

Við þetta má bæta að samkvæmt minningargrein í Morgunblaðinu voru foreldrar hans Jóhann Valdimarsson, vélstjóri og pípulagningameistari í Reykjavík, og Sigríður Ebenezardóttir, húsfreyja í Reykjavík og síðar á Akranesi. Stjúpfaðir hans var Magnús Ásmundsson, sjómaður og verkamaður á Akranesi. Haraldur lauk meistaraprófi í hagfræði frá Lundúna-háskóla árið 1956. Þá tók hann BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1986. Hann var hagfræðingur hjá efnahagsmálanefnd um tíma árið 1956, formaður stjórnar Útflutningssjóðs 1957-1960 og formaður stjórnar Hlutatryggingasjóðs 1959-62. Þá var hann fyrirlesari við háskólana í Malaja árin 1964-1968 og Jóhannesarborg í Suður-Afríku 1969-1971. Haraldur var hagfræðingur hjá Framkvæmdastofnun ríkisins frá 1973-1977 og vann eftir það að sjálfstæðum verkefnum. Þá var Haraldur einn helsti efnahagsráðgjafi vinstri stjórnar Hermanns Jónassonar árin 1956-1958. Fram kemur að eftir Harald liggi fjölmörg rit og bækur um efnahagsmál og sögu. Einnig tók hann saman handbækur handa nemendum um ensk orð og orðtök, enska málshætti og útlend orð í ensku. Haraldur ílentist ekki í blaðamennsku, en skrifaði mikið í blöð um ýmis efni, einkum í Þjóðviljann, en einnig um kvikmyndir í Morgunblaðið.

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/659757/

http://landsbokasafn.is/index.php/news/115/90/Hoefudrit-hagfradinnar-gegn-kreppu