Sigurður Benediktsson(1911-1970)

 Sigurður fæddist 10. júlí á Barnafelli í Köldukinn í Ljósavatnshreppi. Foreldrar hans voru Benedikt Sigurðsson og Kristín Kristinsdóttir. Hann var 14 ára að aldri þegar hann af miklu snarræði bjargaði yngri bróður sínum og móður frá bráðum bana og spurðist björgunarafrek þetta til Danmerkur þar sem Sigurður var sæmdur Carnegie-verðlaununum. Hann notaði verðlaunaféð til að kosta sig til mennta á Akureyri, en hélt 18 ára að aldri til náms í blaðamennsku hjá Politiken í Kaupmannahöfn og dvaldist þar í þrjú ár. Heimkominn árið 1935 réðst hann til Morgunblaðsins í lausamennsku og var þar viðloðandi í þrjú ár, en setti síðan á laggirnar Vikuna og ritstýrði ásamt fleiri blöðum næstu 18 árin eða þar til hann sneri sér að listmunauppboðum. Í viðtali við Árna Þórarinsson í Tímariti Morgunblaðsins árið 2006 lýsir Bragi Kristjónsson, samverkamaður Sigurðar um tíma, honum með þessum hætti: „Ef ég ætti að nefna einn aðila, sem hafði og hefur alla tíð haft áhrif á mitt líf, er það engin heims- eða landsþekkt stórkanóna á borð við Halldór Laxness eða Sigurð Nordal, þótt þeir hafi vissulega haft mikil áhrif á mína kynslóð, heldur Sigurður Benediktsson blaðamaður og listuppboðshaldari. Hann varð ungur landsþekktur fyrir björgunarafrek og fékk Carnegie-verðlaunin fyrir. Sigurður hélt til Danmerkur og lærði blaðamennsku hjá Politiken. Þegar hann kom heim gerðist hann „íhlaupablaðamaður“ einsog segir í sögu Valtýs Stefánssonar, hjá Morgunblaðinu og skrifaði nokkur frábær viðtöl þar. Síðan varð hann ritstjóri Vikunnar og hélt áfram sinni iðju, gaf út fleiri blöð, virkjaði Stein Steinarr til að skrifa geðveikt frábæra prósapistla í blað sitt Hádegisblaðið og annaðist síðan blaðaútgáfu fyrir breska og ameríska hernámsliðið.

Uppúr 1950 byrjaði hann með bóka- og listmunauppboð og dó frá því um 1970, tæplega sextugur. Ég byrjaði að snúast í kringum Sigurð fyrir tvítugt, aðstoðaði hann við bókauppboðin og sogaðist inní hans hugar- og menningarheim: Fór með honum til Kjarvals, Nordals og Ragnars í Smára, fékk meiraðsegja að vera með honum í kaffiklúbbi, strákkjáni, þar sem saman komu allskyns borgaralegir bóhemar í gamla Sjálfstæðishúsinu. Sigurður var yfirborðshrjúfur maður, eilítið kaldhæðinn og vænti ekki of mikils af mannskepnunni. Hann var frábær blaðamaður, sérstakur viðtalameistari, sálar- og stemmningaspeglari og ég held hann hafi haft miklu meiri ritræn áhrif á t.d. Matthías Johannessen en nokkurntíma Valtý Stefánsson, sem þó var frábær meistari og öðlingur.“

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=114593&pageId=1417112&lang=is&q=Sigur%F0ur%20Benediktsson%20SIGUR%D0UR

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3305526&lang=0