- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Valdimar fæddist á Hvarfi í Bárðardal. Hann var af fátæku fólki kominn, en fróðleiksfús og ágætlega sjálfmenntaður þegar hann hélt til Reykjavíkur um tvítugt til að leita sér formlegra mennta, sem þó varð ekki af. Fékkst hann við kennslu og samdi réttritunarbók sem fékk mikla útbreiðslu og Björn Jónsson í Ísafold keypti reyndar af honum síðar. Hann varð ritstjóri Fjallkonunnar 1884 þegar blaðið kom fyrst út og þá hálfsmánaðarlega. Síðar eignaðist Valdimar blaðið og um tíma var það útbreiddasta blaðið hér á landi. Saman ráku þau hjónin Valdimar og Bríet Bjarnhéðinsdóttir, helsti kvenréttindafrömuður landsins fyrr og síðar, saman talsvert umfangsmikla útgáfustarfsemi. Auk Fjallkonunnar gáfu þau út Kvennablaðið og Barnablaðið auk bókaútgáfu, þar sem Sögusafn Fjallkonunnar skipaði veglegan sess og voru bækur í þeim flokki ætlaðar sem kaupauki fyrir áskrifendur Fjallkonunnar.
Meðal bóka sem þannig birtust var Makt myrkranna, sagan um Drakúla greifa eftir Bram Stoker og Valdimar þýddi sjálfur, en hún birtist upphaflega sem framhaldssaga í Fjallkonunni.
„Valdimar Ásmundsson var frábitinn pólitískum þrætum í blaði sínu,“ segir Guðjón Friðriksson í fjölmiðlasögu sinni Nýjustu fréttir!, „en samt var hann allra manna pólitískastur. Hann vildi bara ekki láta allt drukkna í þrasinu við Dani, en hafði það að leiðarljósi að alþýðan þyrfti fyrst og fremst að menntast. Í samræmi við það sagði Valdimar að blað sitt yrði eingöngu fræðiblað og skemmtiblað.“ Í svipaðan streng tekur Vilhjálmur Þ. Gíslason í Blöðum og blaðamönnum 1733-1944: „Blaðamennska Valdimars Ásmundssonar var með nokkuð sérstökum hætti, í anda einskonar þjóðlegrar og alþýðlegrar upplýsingastefnu, en þó nýtízkuleg á ýmsa lund, reyndi að koma víða við og vera óháð og óflokksbundin.“
Vilhjálmur vitnar í orð Valdimars í grein um gagnsemi blaða frá 1887 til að sýna trú hans á þessum miðli: „Engin bók, enginn kennari, engin menntastofnun fræðir alþýðuna, vekur hana og hvetur til starfa sem gott dagblað. Blöðin eru hinn besti skóli þjóðarinnar.“
Matthías Viðar Sæmundsson skrifaði ættarsögu þeirra Valdimars, Bríetar og barna þeirra Héðins og Laufeyjar – Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey, fjölskylda og samtíð Héðins Valdimarssonar, sem kom út árið 2004.
http://is.wikipedia.org/wiki/Valdimar_%C3%81smundsson
http://timarit.is/files/12838546.pdf#navpanes=1&view=FitH&search=%22Valdimar%20%C3%81smundsson%22