Vilhjámur Finsen(1883-1960)

Vilhjálmur var borinn og barnfæddur Reykvíkingur. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum og var við hagfræðinám í Hafnarháskóla þegar hann ákvað að söðla um og mennta sig sem loftskeytamaður. Fór Vilhjálmur víða um lönd í siglingum, kynntist erlendum blöðum á ferðum sínum og skrifað m.a. ferðagreinar fyrir Hendrik Calving, hinn annálaða ritstjóra Politiken, sem hann hafði komist í kynni við. Vilhjámur stofnaði Morgunblaðið með það fyrir augum að gefa út óháð fréttablað og hafði einkum Politiken í Danmörku að fyrirmynd, en reyndar einnig fleiri stórblöð. Vilhjálmur hafði búið árum saman erlendis og verið fréttaritari slíkra blaða þegar hann sneri heim 1913 til að stofna Morgunblaðið. Með honum stóð að stofnun blaðsins Ólafur, sonur Björns Jónssonar, gamall skólabróðir sem tekið hafði við ritstjórn Ísafoldar 1909 er Björn Jónsson varð ráðherra. Náin tengsl voru því milli Morgunblaðsins og Ísafoldar sem áfram var gefið út vikulega.

Vilhjálmur Finsen var ritstjóri Morgunblaðsins frá upphafi til ársloka 1921. Hann taldi hins vegar ráðlegast að selja blaðið árið 1919 í kjölfar þess að Ólafur hafði selt sinn hlut til hóps kaupmanna í Reykjavík. Í fjölmiðlasögu sinni segir Guðjón Friðriksson ljóst að Vilhjálmur hafi selt Morgunblaðið þvert gegn vilja sínum, enda segir hann sjálfur að hann hafi verið „eins og halaklipptur hundur eftir að búið var að ganga frá þessu“. Í 50 ára afmælisriti Morgunblaðsins 1963 segir Sigurður Bjarnason frá Vigur, einn þáverandi ritstjóra blaðsins, um Vilhjálm: „Það mun mál allra þeirra, er honum kynntust, að hann hafi verið fjölhæfur og dugandi blaðamaður, hið mesta lipurmenni í allri framkomu og glöggskyggn á nýjungar, er til heilla horfðu.“ Vilhjálmur vann eftir ritstjóraferil sinn á Íslandi hjá ýmsum norrænum blöðum, stofnaði vikublaðið Fálkann ásamt Skúla Skúlasyni og Svavari Hjaltested árið 1928, en átti síðan langan og farsælan feril í utanríkisþjónustunni. Vilhjámur Finsen var gerður að heiðursfélaga í Blaðamannafélagi Íslands.

http://is.wikipedia.org/wiki/Vilhj%C3%A1lmur_Finsen

http://timarit.is/files/12908920.pdf#navpanes=1&view=FitH&search=%22VILHJ%C3%81LMUR%20finsen%20FINSEN%22