Jafnréttisþing: Fjölmiðlar og konur

Á miðvikudaginn verður haldið Jafnréttisþingi 2015 og  verður þar lögð áhersla á stöðu kvenna og kynjaðar birtingarmyndir á opinberum vettvangi. Þingið er haldið á Hilton Nordica hóteli í Reykjaví og stendur frá því kl. 8.30 – 16.45.  Þeir sem vilja mæta þurfa að skrá sig á http://asp.artegis.com/jafnretti

Markmiðið er að varpa ljósi á ólíka stöðu kvenna og karla í fjölmiðlum og kvikmyndum annars vegar og hins vegar að fjalla um umfang og eðli kynbundinnar hatursorðræðu. Jafnréttisþingið er haldið á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi og markar upphaf 16 daga átaksins sem lýkur 10. desember á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna.

Aðalfyrirlesarar þingsins eru Maria Edström, lektor við Fjölmiðladeild Háskólans í Gautaborg og verkefnisstjóri Nordicom–verkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar um aukið jafnrétti í fjölmiðlum, og Anna Serner, forstöðumaður sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar. Kynntar verða niðurstöður nýrra rannsókna um hlut kvenna og karla í íslenskum fjölmiðlum.

 Jafnréttisþing er að þessu sinni haldið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjölmiðlanefnd. Þingstjóri verður Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. Fjölmiðlaviðurkenning Jafnréttisráðs verður veitt að lokinni dagskrá þingsins.

Á jafnréttisþingi leggur félags- og húsnæðismálaráðherra fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála 2013–2015. Hlutverk þingsins er að efna til umræðu milli stjórnvalda og þjóðar um málefni kynjajafnréttis og gefa áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnumótun í jafnréttismálum. Jafnréttisþing er öllum opið og aðgangur ókeypis en boðið verður upp á hádegsiverð gegn vægu gjaldi.