- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kjarninn og Stundin hafa í gær og í dag birt upplýsingar úr stafrænum samskiptum nokkurra starfsmanna/ráðgjafa Samherja sem kalla sig “skæruliða” og hafa haft það hlutverk að bregðast við umfjöllun fjölmiðla um fyrirtækið í kjölfar Namibíumálsins. Þar kemur skýrt fram að viðbrögðin miðast við að skaða trúverðugleika þeirra einstaklinga sem flytja fréttirnar auk þess sem talsmátinn þessum samskiptum er grófur.
Í morgun birti Kjarninn upplýsingar um að þessi hópur hafi talið að formannskosningar í Blaðamannafélaginu snerust um það RÚV hygðist yfirtaka félagið og nota það í atlögu að Samherja. Því hygðist hópurinn reyna að hafa áhrif á kosningarnar þannig að Sigríður Dögg Auðunsdóttir sem vinnur á RÚV næði ekki kjöri, en Heimir Már Pétursson, á Stöð 2 sem hópurinn skilgreindi sem fulltrúa einkarekinna miðla yrði þess í stað kosinn. Ítarleg umfjölun er um þetta í Kjarnanum og þar er m.a. að finna yfirlýsingu eða afstöðu frá Sigríði Dögg formanni BÍ vegan þessa máls. Sú afstaða er eftirfarndi:
“Ég lít á þetta sem alvarlega aðför að kjöri formanns í fag- og stéttarfélagi sem er algjörlega ólíðandi. Aðgerðunum sem þarna er lýst er ætlað að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni. Þetta eru aðgerðir sem beinast ekki einungis gegn mér heldur einnig mótframbjóðanda mínum því ég treysti mér að fullyrða að hann hafi ekki haft neina hugmynd um þessa atlögu að mér. Né heldur hefði hann verið henni samþykkur enda þekki ég hann að því einu að vera staðfastur og heiðarlegur prinsippmaður.“
„Það er grafalvarlegt og algjörlega ólíðandi að samfélagslega mikilvægt fyrirtæki á borð við Samherja geri tilraun til þess að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri Blaðamannafélags Íslands. Ég tel engar líkur á því að þessi tilraun þeirra til að hafa áhrif á formannskjörið hafi skilað árangri því blaðamenn, sama á hvaða miðli þeir starfa, eru upp til hópa prinsippfastir og heiðarlegir. Á íslenskum fjölmiðlum starfar mikið hugsjónafólk sem hefur metnað fyrir starfinu sínu og faginu og myndi aldrei láta undan þrýstingi sem þessum. Það breytir því þó ekki að tilraunin sjálf er í eðli sínu mjög alvarleg og vekur upp spurningar um hvernig stéttin og samfélagið allt geti brugðist við í ljósi þess hvaða aðferðum hagsmunaöfl eru farin að beita til þess að stýra umræðunni í landinu.”
“Þetta vekur einnig upp spurningar um hvernig samfélagið allt þurfi að bregðast við árásum á blaðamenn og fjölmiðla í ljósi þess að fjölmiðlar standa nú veikari fótum en áður til þess að veita nauðsynlega mótspyrnu. Það er ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra hve rekstrargrundvöllurinn hefur veikst, heldur varðar það samfélagið allt því grundvöllur lýðræðisins eru frjálsir, óháðir fjölmiðlar sem geta veitt stjórnvöldum og stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Ísland hefur færst neðar á lista Blaðamanna án landamæra (RSF) um fjölmiðlafrelsi og er staðan hér metin töluvert lakari en á hinum Norðurlöndunum. Sú þróun er sannarlega ekki í þágu samfélagsins en mögulega hagsmunaaflanna sem hafa hag af því að um þau sé ekki fjallað með gagnrýnum hætti.”
“Varðandi þær ávirðingar sem fram koma um ákvörðun mína að bjóða mig fram til formennsku í Blaðamannafélagi Íslands og kosningabaráttuna vil ég taka það fram að engar hópskráningar áttu sér stað í félagið í aðdraganda kosninganna, hvorki fyrir hvatningu mína né mótframbjóðanda míns. Það getur framkvæmdastjóri og stjórn vottað. Kosningabarátta okkar beggja var lágstemmd, heiðarleg og málefnaleg og ég lít á mig sem formann allra félaga í Blaðamannafélagi Íslands, sama á hvaða miðli þeir starfa, enda höfum við öll sömu hagsmuna að gæta, að vernda stéttina og tryggja að hér starfi sjálfstæðir, frjálsir fjölmiðlar í þágu lýðræðisins.“