381 milljón úthlutað í fjölmiðlastyrki

Menningar- og viðskiptaráðuneytið, sem málefni fjölmiðla heyra undir, tilkynnti í gær, miðvikudag, um úthlutun styrkja til endurgreiðslu kostnaðar við rekstur einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Í tilkynningunni segir: „Úthlutunarnefnd um úthlutun rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla hefur lokið störfum í ár. Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar hljóta 25 fjölmiðlaveitur rekstrarstuðning árið 2022, en alls bárust 28 umsóknir um rekstrarstuðning.
Samtals var sótt um rekstrarstuðning að fjárhæð 917,5 milljónir kr. en til úthlutunar voru 380 milljónir króna. Markmið styrkjanna er að bæta rekstrarskilyrði fjölmiðla og efla getu þeirra í miðlun upplýsinga til almennings á Íslandi.“
Nánari upplýsingar um úthlutunina er að finna á vef Fjölmiðlanefndar

Þar kemur fram að þrjú fyrirtæki fá hæstu styrkina, 66,77 milljónir hvert, en það eru Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, Torg ehf., útgáfufélag Fréttablaðsins, og Sýn ehf., sem rekur Stöð 2, Vísi.is og fleiri miðla. 

Heildarpotturinn sem til úthlutunar var nú var lægri en í fyrra. Bæði vegna þess og að fleiri miðlar fengu nú styrk en í fyrra eru upphæðir styrkjanna sem hver miðill fær í ár almennt lægri, með örfáum undantekningum. 

Sjá nánar í fréttaskýringu Kjarnans, birt 16. september.