Aðgerðir gegn blaðamönnum - aðför að tjáningarfrelsi

Titill leiðarans í Blaðamanninum, 1.tbl. 44. árg. des. 2022
Titill leiðarans í Blaðamanninum, 1.tbl. 44. árg. des. 2022

Leiðari formanns BÍ, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, sem birtist í 1.tbl. 44. árg. Blaðamannsins í desember 2022

Ágætu félagar.

Senn er að líða ár talsverðra tímamóta í sögu félagsins. Félag fréttamanna á Ríkisútvarpinu og Blaðamannafélag Íslands sameinuðust í eitt félag í vor. Markmið sameiningarinnar var ekki síst að búa til ein öflug heildarsamtök blaða- og fréttamanna á Íslandi enda þurfti stéttin að þétta raðirnar og standa saman gegn þeim ógnum sem að henni steðja.

Sjaldan hefur verið jafnmikil þörf á því og einmitt nú, að blaðamenn snúi bökum saman gegn þeim árásum sem stéttin og einstaka blaðamenn hafa orðið fyrir undanfarin misseri.

Lögreglustjórinn viðheldur kælingaráhrifunum

Samherjamálið virðist engan endi ætla að taka og virðist sem lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hafi tekið að sér það hlutverk að sýna blaðamannastéttinni hvar Davíð keypti ölið með því að gefa fjórum blaðamönnum réttarstöðu sakborninga fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins kemur upp um vanþekkingu sína á hlutverki fjölmiðla – eða mögulega virðingaleysi sitt gagnvart því – með því að spyrja opinberlega hvort blaðamenn séu of góðir til að mæta til yfirheyrslu eins og almennir borgarar þegar lagaleg sérstaða blaðamanna er mjög skýr og hefur margoft verið áréttuð fyrir dómstólum, hér á landi sem annars staðar. Þegar blaðamenn benda á ákvæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og hina sérstöku vernd sem blaðamenn njóta vegna þess hlutverks sem fjölmiðlar gegna með tilliti til opinberrar umræðu í lýðræðisríki skjóta sumir við því skollaeyrum og saka stéttina um viðkvæmni. Algjörlega er horft fram hjá þeim alvarlegu kælingaráhrifum sem þessi gjörningur hefur á stéttina alla og þá skerðingu á tjáningarog atvinnufrelsi blaðamanna sem þau hafa í för með sér. Lögreglustjórinn viðheldur kælingaráhrifunum með því að tryggja ekki skjóta rannsókn eða frávísun málsins heldur er það nú bókstaflega niðri í skúffu hjá embættinu sem ekki getur sinnt rannsókninni „sökum anna“, líkt og verjandi eins sakborninganna hefur fengið upplýsingar um hjá embættinu, þrátt fyrir að nær tíu mánuðir séu nú liðnir frá því að blaðamenn fengu réttarstöðu sakbornings.

Vonast eftir viðbrögðum ríkissaksóknara

Þessi viðhorf embættismanna sem fara með opinbert vald í umboði borgaranna eru grafalvarleg og ættu að vera umhugsunarefni fyrir samfélagið allt. Skortur á skilningi á hlutverki fjölmiðla meðal æðstu valdamanna þessa lands og afneitun á mikilvægi þeirra fyrir lýðræðislega umræðu getur haft alvarlegar afleiðingar. Þeir blaðamenn sem hafa réttarstöðu sakbornings vegna fréttaskrifa hafa nú sent ríkissaksóknara erindi þar sem bent er á að lögreglurannsóknin feli í sér inngrip í tjáningarfrelsi þeirra og bent á að samkvæmt dómum beri að gjalda varhug við íhlutun lögreglu sem kann að vera túlkuð sem afskipti af störfum blaðamanna við öflun og miðlun frétta um mikilvæg málefni. Ákærendum beri jafnframt að hraða meðferð mála, sérstaklega þar sem þau lúta að inngripi í tjáningarfrelsi einstaklinga. Ríkissaksóknari hefur heimild samkvæmt lögum að kveða á um rannsókn máls, mæla fyrir um framkvæmd hennar og fylgjast með henni. Þá getur ríkissaksóknari að eigin frumkvæði ákveðið að kæru skuli vísað frá eða að rannsókn sem er hafin skuli hætt. Í erindinu er athygli Ríkissaksóknara vakin á því hve rannsókn málsins hefur dregist úr hófi og áhrif þess á tjáningarfrelsi blaðamannanna, auk þess sem bent er á að aldrei hafi verið lagalegt tilefni til að ráðast í hana.

Isavia vísar frá sér ábyrgð

Við höfum nýlega þurft að horfa upp á fleiri dæmi þar sem atlaga er gerð að störfum blaðamanna þar sem starfsmenn Isavia beittu ljósabúnaði til að koma í veg fyrir að blaðamenn gætu sinnt störfum sínum og reyndu að hindra fréttaflutning. Blaðamannafélagið hefur lýst áhyggjum sínum af málinu og óskaði eftir fundi með ríkislögreglustjóra og forstjóra Isavia. Fundur var haldinn með ríkislögreglustjóra en forstjóri Isavia varpar frá sér ábyrgð á málinu og hefur ekki þegið boð um fund þrátt fyrir ítrekun. Málinu er því ekki lokið af hálfu félagsins enda lítum við það eftir sem áður alvarlegum augum. 

Önnur hver króna til útlanda

Rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur sjaldan verið erfiðara. Nýjustu tölur Hagstofunnar sýna að á síðasta ári fór nærri önnur hver króna, sem varið var til auglýsinga, til erlendra miðla, tæplega tíu milljarðar. Hagstofan ætlar að 95% þess fjármagns hafi runnið til Google og Facebook. Til samanburðar eru styrkir til einkarekinna miðla hér á landi tæplega hálfur milljarður, með nýjustu viðbótinni til framleiðslu sjónvarpsefnis á landsbyggðinni, upp á 100 milljónir. Veik staða fjölmiðlanna getur orðið til þess að þeir ná síður að sinna því upplýsinga- og aðhaldshlutverki sem er nauðsynlegt lýðræðinu en það hefur ekki síst áhrif á blaðamenn því við sjáum í spurningakönnun sem lögð var fyrir félagsmenn í október að þeir finna fyrir auknu álagi. Vísbendingar eru í könnuninni um að orsakir álagsins séu fyrst og fremst rekstrarlegs eðlis þótt nauðsynlegt sé að rýna betur í þær. Samdráttur í tekjum veldur því að störfum á fjölmiðlum fækkar og álag eykst að sama skapi á þá sem áfram manna ritstjórnirnar.

Við þessu þarf að bregðast og eitt af því sem félagið hefur unnið að undanfarin misseri er að efla vitund og þekkingu á störfum og hlutverki blaðamanna meðal almennings og ráðamanna til þess að koma á samfélagssátt um aðgerðir til stuðnings einkareknum miðlum, bæði aðgerðir af hendi stjórnvalda sem og almennings og fyrirtækja. Það verður stóra verkefni félagsins á næsta ári, að vinna enn frekar að þeim markmiðum.

Það er mikilvægt sem aldrei fyrr að stéttin standi saman. Við þurfum að hvetja hvert annað og efla faglega umræðu og vitund svo við getum í sameiningu staðið keik af okkur brimskafla líkt og þá sem hér að ofan eru raktir. Ljósaflóðið á Keflavíkurflugvelli verður síður en svo síðasta ágjöfin – en það er brýnt að þegar á okkur er brotið látum við í okkur heyra. Við höfum skyldur gagnvart faginu og almenningi að standa vörð um tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðlun – og ef við gætum ekki þessara mikilvægu hagsmuna gerir það enginn.